Sport

Anníe Mist bendir á magnaða staðreynd um íslensku dæturnar í crossfit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir á pallinum um síðustu helgi.
Anníe Mist Þórisdóttir á pallinum um síðustu helgi. Mynd/Instagram/anniethorisdottir
Anníe Mist Þórisdóttir og íslensku crossfit stelpurnar voru enn á ný í hópi efstu kvenna á heimsleikunum í crossfit sem lauk í Madison um síðustu helgi.

Ísland átti reyndar ekki hraustustu konu heims áfram eins og síðustu tvö ár en átti þrjár íslenskar konur voru hinsvegar í hópi fimm efstu.

Anníe Mist stóð sig best og náði þriðja sætinu. Þetta var í fimmta sinn sem hún kemst á pall á heimsleikunum í crossfit.

Árangur íslensku stelpnanna hefur að sjálfsögðu vakið mikla athygli erlendis og margir fjölmiðlar hafa fjallað vel um dæturnar frá Íslandi.

Svo öflugar hafa þær verið að koma myllumerkinu dóttir á framfæri að aðrar íslenskar íþróttakonur eru farnar að nota það sem vörumerki fyrir sig. Þar má nefna íslenska kvennalandsliðið í fótbolta og Ásdísi Hjálmsdóttur sem endaði eins og kunnugt er í 11. sæti á HM í frjálsum í vikunni.

Anníe Mist hefur verið að gera upp heimsleikana á Instagram síðunni sinni og hún vakti þar athygli á magnaðri staðreynd um dæturnar í crossfit.

„Ég er svo stolt af því að koma fram fyrir þjóð mína sem telur aðeins 350 þúsund manns. Hversu ótrúlegt er að aðeins einu sinni frá árinu 2010 hefur það gerst að íslensk kona hefur ekki verið á palli á heimsleikunum? Við erum líka ekkert að fara. Stolt af því að keppa við hlið Katrínar Tönju Davíðsdóttur, Ragnheiðar Söru Sigmundsdóttur og Þuríðar Erlu Helgadóttur. Við gerum hverja aðra betri,“ skrifaði Anníe Mist eins og sjá má hér fyrir neðan.  



 



Íslenskar konur á verðlaunapalli á heimsleikunum í crossfit

Heimsleikarnir 2010

Anníe Mist Þórisdóttir - silfurverðlaun

Heimsleikarnir 2011

Anníe Mist Þórisdóttir - gullverðlaun

Heimsleikarnir 2012

Anníe Mist Þórisdóttir - gullverðlaun

Heimsleikarnir 2013

Engin (Annie Mist meidd)

Heimsleikarnir 2014

Anníe Mist Þórisdóttir - silfurverðlaun

Heimsleikarnir 2015

Katrín Tanja Davíðsdóttir - gullverðlaun

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir - bronsverðlaun

Heimsleikarnir 2016

Katrín Tanja Davíðsdóttir - gullverðlaun

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir - bronsverðlaun

Heimsleikarnir 2017

Anníe Mist Þórisdóttir - bronsverðlaun

Flest verðlaun:

Anníe Mist Þórisdóttir 5 (2 gull, 2 silfur, 1 brons)

Katrín Tanja Davíðsdóttir 2 (2 gull)

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir 2 (2 brons)

Samanlagt:

4 gullverðlaun

2 silfurverðlaun

3 bronsverlaun


Tengdar fréttir

Annie Mist: Eyddi öllum efasemdaröddunum

Annie Mist Þórisdóttir komst aftur á verðlaunapall á heimsleikunum í crossfit um helgina, sjö árum eftir að hún var þar fyrst og þremur árum eftir að hún var þar síðast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×