Íslenski boltinn

Gunnlaugur: Högg í magann að tapa þessu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gunnlaugur Jónsson segir að Skagamenn muni ekki gefast upp þrátt fyrir erfiða stöðu í Pepsi-deildinni.
Gunnlaugur Jónsson segir að Skagamenn muni ekki gefast upp þrátt fyrir erfiða stöðu í Pepsi-deildinni. vísir/ernir
„Fyrst og fremst eru þetta gríðarleg vonbrigði. Mér fannst við byrja leikinn vel og erum betri aðilinn fyrstu 30-35 mínúturnar. Við fáum ágæt færi en þeir fá síðan færi undir lok fyrri hálfleiks. Við byrjum síðan aftur sterkt og komust yfir og í stöðunni 2-1 hélt ég að við myndum loka hreinlega markinu. Því miður þá gefum við þetta frá okkur með frekar slökum varnarleik,“ sagði Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA eftir grátlegt tap hans manna gegn Grindavík í kvöld.

Skagamenn komust tvisvar yfir í dag en misstu forystuna niður áður en Grindvíkingar skoruðu sigurmarkið þegar sex mínútur voru eftir.

„Það sem við náum upp gegn KR er ofboðslegur þéttleiki og hrikaleg vinnusemi þar sem hjálparvörn var alltaf til staðar. Við erum opnir í dag full glannalega og við erum ekki eins þéttir og við vorum gegn KR. Það er eitthvað sem ég er ósáttur með og við þurfum að skoða það og laga.“

Grindvíkingar skoruðu úr tveimur vítaspyrnum í dag og voru Skagamenn sérstaklega ósáttir með seinna vítið sem annar aðstoðardómarinn dæmdi. Hvað fannst Gunnlaugi um þessa dóma?

„Því miður er ég ekki í nógu góðri aðstöðu til að sjá það. Mér fannst seinna vítið frekar „soft“ eftir því sem leikmenn segja. Við eigum klárlega að fá víti í fyrri hálfleik en svona er þetta. Við þurfum bara að horfa í næsta leik og það er heldur betur stórleikur gegn ÍBV,“ en ÍA er þremur stigum á eftir Eyjamönnum í neðsta sæti deildarinnar og á ÍBV leik til góða gegn Ólsurum á miðvikudag.

„Við ætluðum að koma hingað í dag og taka þrjú stig. Það er ljóst að við þurfum að gíra okkur hrikalega upp gegn ÍBV og vinnan í þessari viku snýst um það hvernig við ætlum að ná í þrjú stig.“

„Þetta er vissulega högg í magann að ná forystu tvisvar og tapa svo leiknum. Við þurfum að vera menn að taka því og vera menn að mæta til leiks á Akranesi. Það er enn von og á meðan hún er þá gefumst við ekki upp.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×