Íslenski boltinn

FH seldi Kristján Flóka til norska félagsins Start

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Flóki Finnbogason.
Kristján Flóki Finnbogason. Vísir/Stefán
Kristján Flóki Finnbogason hefur spilað sinn síðasta leik með FH í sumar en Íslandsmeistararnir hafa selt þennan öfluga framherja til norska félagsins Start.

Start staðfestir kaupin inn á heimasíðu sinni í kvöld. Kristján Flóki hefur skrifað undir þriggja og hálfs árs samning við liðið.  Start spilar í norsku b-deildinni þar sem liðið er í baráttunni um sæti í norsku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Hinn 22 ára gamli Kristján Flóki hefur skorað 8 mörk í 14 leikjum með FH í Pepsi-deildinni. Hann hefði getað unnið titil í sínum síðasta leik með FH en varð að sætta sig við silfur í bikarúrslitaleiknum um síðustu helgi.

Kristján Flóki kemur til Start á föstudaginn og gæti mögulega spilað sinn fyrsta leik á móti Tromsdalen í norsku b-deildinni á sunnudaginn.

Þetta er í annað skiptið sem Kristján Flóki fer út en hann var í herbúðum danska félagsins FC Kaupmannahöfn frá 2013 til 2015.

„Ég hef fylgst með þessum framherja í langan tíma og hann er svona dæmigerður framherji. Hann er sterkur í návígum, agressívur og góður skallamaður. Hann er líka ungur ennþá sem er gerir þetta enn betra fyrir okkur. Við sjáum möguleika fyrir hann að bæta sig,“ sagði Tor Kristian Karlsen, íþróttastjóri Start um Kristján Flóka á heimasíðu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×