Innlent

Saka sjávarútvegsráðherra um að hygla risunum

Strandveiðiaflinn, sem hlutfall af þorskkvóta, hefur dregist saman frá árinu 2012 og ber ráðherra að grípa inn í, segir í tilkynningunni.
Strandveiðiaflinn, sem hlutfall af þorskkvóta, hefur dregist saman frá árinu 2012 og ber ráðherra að grípa inn í, segir í tilkynningunni. vísir/stefán
Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) segja í tilkynningu að fordæmalaus 30 prósenta hliðrun afla milli fiskveiðiára, til að koma til móts við stórútgerðir, hafi þau áhrif að einungis strandveiðifiskur berst nú á markaði. SFÚ tekur undir kröfur Landssambands smábátaeigenda um að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hækki aflaviðmiðun til strandveiða í ágúst þannig að ekki komi til stöðvunar veiða.

Í tilkynningunni segir að vegna langvinns sjómannaverkfalls í byrjun þessa árs verði afli á Íslandsmiðum mun minni á þessu ári en gert hafði verið ráð fyrir við úthlutun aflaheimilda. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra hafi komið til móts við stórútgerðir með því að heimila fordæmalausa þrjátíu prósenta hliðrun afla milli fiskveiðiára. Þessi hliðrun hafi hins vegar þau áhrif að einungis strandveiðifiskur berst nú á markaði og í stærri fiskvinnslur, sem eru hluti af lóðrétt samþættum sjávarútvegsfyrirtækjum, koma inn á kauphlið og skapa tilfinnanlegan skort fyrir smærri vinnslur, sem reiða sig eingöngu á fiskmarkaðsfisk sem hráefni.

Í tilkynningunni segir einnig að mikilvægt sé að ráðherra hafi hagsmuni fleiri aðila en stórútgerðarinnar í fyrirrúmi. Nauðsynlegt sé að bregðast við strax og tryggja samfelldar strandveiðar allan ágúst. Það verður einungis gert með því að hækka aflaviðmiðun. Þá er bent á að varla sé það í þágu samkeppni í íslenskum sjávarútvegi að hygla örfáum risum í greininni á kostnað sjálfstæðra aðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×