Innlent

Halda í opin­bera heim­sókn til Eyja

Atli Ísleifsson skrifar
Halla Tómasdóttir forseti Íslands.
Halla Tómasdóttir forseti Íslands. Vísir/Vilhelm

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, og Björn Skúlason, eiginmaður forseta, munu halda í opinbera heimsókn til Vestmannaeyja dagana í dag og á morgun. 

Í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands segir að þar taki bæjarstjórn á móti forsetahjónum og kynni þeim mannlífið, helstu stofnanir og atvinnulíf í Eyjum.

„Vestmannaeyjar eru ein mikilvægasta verstöð landsins og nafntogaðar fyrir náttúrufegurð og blómlegt samfélag. Forsetahjón munu dvelja í Vestmannaeyjabæ á Heimaey. Dagskráin hefst síðdegis fimmtudaginn 8. janúar. Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri tekur á móti forsetahjónum á flugvellinum, ásamt Páli Magnússyni forseta bæjarstjórnar, Njáli Ragnarssyni formanni bæjarráðs og Drífu Gunnarsdóttur , framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs bæjarins. Þaðan verður ekið í Sagnaheima þar sem verður opið hús frá kl. 16.30. Bæjarbúum gefst þar kostur á að hitta forsetahjónin og taka þátt í hátíðlegri dagskrá þar sem boðið verður upp á tónlistaratriði, auk þess sem forseti og bæjarstjóri flytja ávörp.

Fyrir hádegi á öðrum degi heimsóknarinnar eru leikskólinn Kirkjugerði, Grunnskóli Vestmanneyja og Framhaldsskóli Vestmannaeyja heimsóttir. Einnig kynna forsetahjón sér starfsemina í vinnu- og hæfingarstöðinni Heimaey, Safnahúsinu og Bókasafni Vestmannaeyja. Í hádeginu sitja forsetahjón fund með bæjarstjórninni í Ráðhúsinu og hitta starfsfólk þar. Síðdegis fara forsetahjón m.a. í heimsóknir í Ísfélag Vestmannaeyja, Þekkingarsetur Vestmannaeyja og Laxey sem er að byggja upp landeldi í Eyjum. Þau hafa einnig viðkomu í Týsheimilinu á Hamarsvegi þar sem haldið verður árlegt Þrettándakaffi fyrir sjálfboðaliða Þrettándagleðinnar. Dagskánni lýkur á þátttöku forsetahjóna í Þrettándagleðinni á malarvelli ÍBV,“ segir í tilkynningunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×