Körfubolti

Tap á móti Serbum á Evrópumóti U20 liða í körfubolta

Elías Orri Njarðarson skrifar
Tryggvi Snær skoraði 22 stig fyrir Ísland í kvöld.
Tryggvi Snær skoraði 22 stig fyrir Ísland í kvöld. visir/ernir
U20 ára landslið Íslands í körfubolta töpuðu gegn því serbneska 71-89 á Evrópumótinu í Grikklandi og munu spila við Þjóðverja um 7. sætið á mótinu.

Serbar voru sterkari aðilinn í leiknum en þeir leiddu eftir fyrsta leikhluta 17-23. Þeir héldu forskoti sínu vel og áttu Íslendingar fá svör við sóknarleik Serba en Serbar voru yfir 37-53 í hálfleik.

Þriðji leikhluti var eins og hinir tveir, Serbar leiddu og þegar að kom að fjórða leikhluta voru Serbar með gott forskot, 48-73.

Íslensku strákarnir rifu sig í gang í fjórða og seinasta leikhlutanum og unnu hann 23-16 en því miður var það of seint í rassinn gripið og leikurinn endaði 71-89 Serbíu í vil.

Tryggvi Snær Hlinason átti flottan leik fyrir Ísland en hann skoraði 22 stig og tók 9 fráköst og varði 5 skot.

Hjá Serbum var Milos Glisic stigahæstur en hann skoraði 23 stig og tók 7 fráköst.

Nikola Tanaskovic kom á eftir honum með 22 stig og 12 fráköst.

Ísland mætir Þjóðverjum í leik um 7. sæti á morgun kl 13:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×