Flugmenn bandarískrar eftirlitsflugvélar þurftu að grípa til aðgerða þegar flugmaður kínverskrar herþotu flaug í veg fyrir eftirlitsvélina vestur af Kóreu-skaganum. Tveimur J-10 herþotum var flogið að vélinni, sem er af gerðinni EP-3, þegar hún var á flugi á alþjóðlegu flugsvæði yfir Austur-Kínahafi. Hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna segja kínversku flugmennina hafa ógnað öryggi flugmanna sinna.
Annarri J-10 vélinni var flogið á miklum hraða undir eftirlitsflugvélina og svo dróg flugmaður hennar verulega úr hraða hennar og flaug í veg fyrir eftirlitsvélina svo að flugmenn hennar þurftu að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir árekstur, samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar.
Jeff Davis, talsmaður Pentagon, segir hegðun kínversku flugmannanna ekki í samræmi við fyrri aðferðir þeirra. Flugvélar Bandaríkjanna og Kína koma reglulega saman á svæðinu og Davis segir flugmenn Kína iðulega haga sér að mikilli fagmennsku.
Yfirvöld Kína hafa þó reglulega kvartað yfir veru herafla Bandaríkjanna á svæðinu og þá sérstaklega í Suður-Kínahafi. Þar hefur Peking gert tilkall til nánast alls hafsvæðisins, upp að ströndum fjölda ríkja.
Tottenham
Manchester Utd