Erlent

Stærsta flóðbylgjan á Grænlandi náði níutíu metra hæð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Húsum skolaði út á sjó þegar flóðbylgjan gekk yfir Nuugaatsiaq.
Húsum skolaði út á sjó þegar flóðbylgjan gekk yfir Nuugaatsiaq. Arktisk Kommando/Palle Lauritsen
Bandarískir vísindamenn, sem rannsakað hafa svæðið við firðina í kringum grænlensku bæina Uummannaq og Nuugaatsiaq, segja hæstu flóðbylgjuna sem skall á svæðið hafa verið um níutíu metrar á hæð að því er fram kemur í frétt Danska ríkissjónvarpsins.

Berghlaup í hlíð í Karrat Isfjorden á Grænlandi olli miklum sjávarflóðum og flóðbylgjum í júní en bæirnir Nuugaatsiaq og Uummanaq urðu einna verst úti í náttúruhamförunum. Hundruð íbúa á svæðinu þurftu að flýja heimili sín og fjórir létust.

Vísindamenn við Georgia Tech-háskólann í Bandaríkjunum, sem sendir voru til rannsókna á svæðinu, segja hæstu flóðbylgjuna hafa verið allt að níutíu metrar á hæð og einhverja þær stærstu sem þeir hafi komist í tæri við.

Flóðbylgjurnar náðu þó aðeins þessari miklu hæð í stuttan tíma en samkvæmt mælingum vísindamannanna voru einhverjar flóðbylgjanna stærri en þær sem skullu á Japan í kjölfar jarðskjálftans þar í landi árið 2011. Yfir fimmtán þúsund manns létust í þeim hamförum og þá gætir enn áhrifa hryllilegra kjarnorkuslysa sem urðu vegna flóðbylgjanna.

Hermann Fritz, einn vísindamannanna í hópnum, sagði einnig að flóðbylgjan hefði skollið mjög hratt á byggð á svæðinu. Íbúar hefðu því ekki haft mikinn tíma til að bregðast við atburðarásinni.

Ríkisstjórn Íslands ákvað að veita 40 milljóna króna framlag til Grænlendinga vegna hamfaranna og þá hafa safnast tugir milljóna í landssöfnuninni Vinátta í verki til styrktar íbúum hamfarasvæðanna.


Tengdar fréttir

Vinátta í verki komin yfir 35 milljónir

Hvert íslenska sveitarfélagið af öðru leggur söfnuninni lið, og er markmiðið að öll sveitarfélögin 74 myndi eins konar kærleikskeðju hringinn um landið

Jarðskjálfti og flóðbylgja á Vestur-Grænlandi

Íbúum í þorpum á Vestur-Grænlandi var skipað að yfirgefa þau vegna flóðbylgna eftir jarðskjálfta af stærðinni fjórir í gær. Slíkir skjálftar eru ekki algengir á Grænlandi.

Leit að þeim sem var saknað á Grænlandi hætt

Grænlenska lögreglan segir að leit að þremur fullorðnum og barni sem var saknað eftir flóðbylgjuna á þjóðhátíðaradginn hafi verið hætt. Fólkið er talið af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×