Gildir ekki það sama um Skagamenn og Valsmenn í Pepsi-deildinni.? Það mætti halda eftir umdeildan rangstöðudóm í leik ÍA og Víkings á Akranesvelli í gærkvöldi.
Skagamenn hefðu væntanlega komst í 2-0 á móti Víkingum ef Tryggvi Hrafn Haraldsson hefði ekki verið dæmdur rangstæður í fyrri hálfleik í leiknum.
Þórður Þorsteinn Þórðarson átti þá sendingu inn fyrir vörnina. Steinar Þorsteinsson var fyrir innan en lét boltann vera og Tryggvi Hrafn kom á eftir honum og var réttstæður.
Aðstoðardómarinn veifaði rangstöðu á Steinar þrátt fyrir að hann hafi ekki komið við boltann.
Tryggvi Hrafn átti reyndar eftir að setja boltann í markið en fékk ekki tækifæri til þess. Víkingar jöfnuðu síðan í síðari hálfleik og Skagamenn misstu tvö dýrmæt stig.
Hörður Magnússon og félagar í Pepsi-mörkunum fóru yfir þetta atvik í Pepsi-mörkunum í gær og báru það saman við samskonar atvik fyrr í sumar.
Sigurður Egill Lárusson skoraði nefnilega mark á móti KR 22. maí þar sem að Kristinn Ingi Halldórsson var rangstæður en lét boltann vera. Markið hans Sigurðar Egils færði Valsmönnum á endanum þrjú stig því þeir unnu þarna 2-1 sigur á KR.
Hér fyrir neðan má sjá umræðuna um þennan rangstöðudóm í Pepsi-mörkunum í gærkvöldi. Þar má einnig sjá mark Sigurðar Egils.
