Íslenski boltinn

Sjáðu mörkin þegar KA setti sex á Eyjamenn | Myndband

Kristinn Páll Teitsson skrifar
KA lenti 0-2 undir snemma leik en svaraði með sex mörkum og vann 6-3 sigur á ÍBV í elleftu umferð Pepsi-deildar karla en með sigrinum komst KA aftur upp í fjórða sæti deildarinnar með fimmtán stig.

Markahrókurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson kom ÍBV yfir snemma leiks og aðeins tveimur mínútum síðar var hann búinn að bæta við marki eftir að boltinn féll fyrir fætur hans við vítateigslínuna.

Sjá einnig:Eyjamenn kafsigldir á Akureyri

Akureyringar létu það ekkert stöðva sig og minnkaði Hallgrímur Mar Steingrímsson metin aðeins þremur mínútum síðar.

Davíð Rúnar Bjarnason jafnaði metin á 39. mínútu og Hallgrímur var aftur á ferðinni í uppbótartíma með marki af vítapunktinum. Leiddi KA því 3-2 í hálfleik.

Almarr Ormarsson bætti við marki fyrir KA á 53. mínútu og Emil Lyng innsiglaði sigurinn á 71. mínútu en Hallgrímur fullkomnaði þrennuna á 79. mínútu leiksins með skalla eftir mistök í vörn ÍBV.

Arnór Gauti Ragnarsson minnkaði metin fyrir ÍBV á 91. mínútu en lengra komst ÍBV ekki.

Mörkin má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×