Eins og tapið gegn Inkasso-deildarliði Leiknis hafi ekki verið nógu fast pungspark fyrir Pepsi-deildarlið Skagamanna þá fékk Garðar alvöru högg á punginn í Breiðholtinu með mátulega alvarlegum afleiðingum.
„Það blæddi allsvakalega inn á og vinstra eistað rofnaði, eins skemmtilega og það hljómar,“ segir Garðar brattur en hann greinir frá þessu sjálfur í sögu á Instagram og hefur húmor fyrir sjálfum sér eins og alltaf.
„Það er minniháttar aðgerð að herinsa þetta út og sauma fyrir. Ég verð kominn aftur á ról á morgun,“ segir Garðar en hann rétt fyrir sex segir hann sjúkraliðið vera að koma sækja sig í aðgerðina. „Þau eru að koma að ná í mig. Ég kannski heyri í ykkur eftir aðgerðina, vel ruglaður,“ segir Garðar Gunnlaugsson.
Markahrókurinn skoraði fyrir ÍA í umræddum leik á móti Leikni úr vítaspyrnu en Breiðhyltingar tryggðu sér sigurinn með fallegu marki Elvars Páls Sigurðssonar á sjöttu mínútu í framlengingu.
ÍA mætir næst Víkingum í Pepsi-deildinni á mánudagskvöldið og er vonandi fyrir Skagamenn að Garðar hafi pung í að spila þann leik.



