Handbolti

Árni Þór: Valur var mest spennandi kosturinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Árni Þór í Valstreyjunni.
Árni Þór í Valstreyjunni. vísir/eyþór
Árni Þór Sigtryggson var í dag kynntur sem nýr leikmaður Íslands- og bikarmeistara Vals.



Árni, sem er 32 ára örvhent skytta, hefur leikið sem atvinnumaður í Þýskalandi undanfarin sjö ár, síðast með Aue þar sem hann lék m.a. undir stjórn bróður síns, Rúnars Sigtryggssonar.

„Við fjölskyldan erum búin að vera lengi erlendis og langaði að flytja heim. Það voru alls konar ástæður fyrir því. Ég kannaði hvað stæði mér til boða og þegar Valur hafði samband var ég mjög hrifinn af því sem þeir höfðu fram að færa. Mér fannst þetta mest spennandi kosturinn,“ sagði Árni eftir blaðamannafund í Valshöllinni í dag þar sem Snorri Steinn Guðjónsson var einnig kynntur sem spilandi þjálfari Vals.

Árni segist hafa haft úr nokkrum tilboðum að velja.

„Það voru nokkur lið sem höfðu samband en það er óþarfi að nefna þau,“ sagði Árni sem er uppalinn Þórsari. En kom það ekkert til greina að fara aftur norður?

„Það voru bara aðrir hlutir sem urðu ofan á í þetta skiptið. Ég heyrði í þeim en Valur varð bara ofan á,“ sagði Árni.

Akureyringurinn kemur inn í afar sterkt Valslið sem er ríkjandi Íslands- og bikarmeistari.

„Ég held að þetta verði mjög gaman. Ég tel mig geta bætt einhverju við liðið,“ sagði Árni sem spilaði síðast hér heima tímabilið 2009-10.

En er hann öðruvísi leikmaður en hann var áður en hann fór út?

„Já, ég tel mig vera betri og meiri alhliða leikmann en áður en ég fór út á sínum tíma,“ sagði Árni að lokum.


Tengdar fréttir

Svona var Snorri Steinn kynntur til leiks

Vísir var með beina útsendingu og beina textalýsingu frá blaðamannafundi þar sem Snorri Steinn Guðjónsson var kynntur sem spilandi þjálfari Íslands- og bikarmeistara Vals.

Elverum vildi fá Gíslasyni

Norska liðið Elverum vildi fá til sín bræðurna Orra Frey og Ými Örn Gíslasyni, en þeir hafa ákveðið að vera áfram í herbúðum Vals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×