Kínverska Nóbelsverðlaunahafanum Liu Xiaobo hefur verið veitt reynslulausn úr fangelsi eftir að hafa greinst með ólæknandi lifrarkrabbamein. Frá þessu greinir lögmaður Liu í samtali við AP.
Liu var dæmdur í ellefu ára fangelsi árið 2009 fyrir að hafa ritað greinina „Charter 08“ ásamt öðrum manni þar sem hvatt var til aukins lýðræðis í Kína. Hann hefur afplánað dóm sinn í fangelsi í Jinzhou í norðausturhluta Kína.
Liu hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2010. „Hann hefur verið öflugur talsmaður þess að einnig eigi að virða grundvallarmannréttindi í Kína,“ sagði Torbjørn Jagland, þáverandi formaður norsku Nóbelsnefndarinnar, þegar hann tilkynnti um verðlaunahafann.
Kínversk stjórnvöld voru mjög óánægð með ákvörðun norsku Nóbelsnefndarinnar og höfðu mikil áhrif á samskipti Kína og Noregs árin eftir útnefninguna.
