Innlent

Skrýtið hvernig örlög húsanna í gosinu réðust af nöfnum þeirra

Kristján Már Unnarsson skrifar

Eldheimar eru nú orðnir vinsælasti viðkomustaður erlendra ferðamanna sem heimsækja Vestmannaeyjar og gosminjar í hrauninu áhrifamesti staðurinn. Í þættinum Ísland í sumar stikla þau Gísli Óskarsson, fréttaritari Stöðvar 2, og Kristín Jóhannsdóttir, forstöðumaður Eldheima, á nokkrum brotum úr sögu Heimaeyjargossins.

Eldgosið á Heimaey árið 1973 er án ef einn af stærstu viðburðum Íslandssögunnar. Sögu Heimaeyjargossins eru gerð skil í Eldheimum, en safnið var grafið inn í rætur Eldfells. Eldheimar eru nú orðnir vinsælasti viðkomustaður erlendra ferðamanna sem heimsækja Vestmannaeyjar. 

Hér er sýnt hús sem var grafið undan sextán metra þykku öskulagi. Gestir sjá rústir heimilis með eldhúsi, salerni, svefnherbergjum og stofum. Það eykur á áhrifamáttinn að húsmóðirin, Gerður Sigurðardóttir, birtist sjálf á skjám og lýsir upplifun sinni. 

Gestir eru teknir í ferðalag um gossöguna. Tímavélin gefur gestum færi að sjá þróun gossins frá því sprungan opnaðist og allt til gosloka. Fólk upplifir einnig gosdrunurnar.

Gísli Óskarsson, kennari og fréttaritari Stöðvar 2 í Vestmannaeyjum.Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Og það var margt einkennilegt í gosinu. Gísli Óskarsson bendir okkur á það hvernig nöfn húsanna virðast hafa tengst örlögum þeirra. Húsið Hraun fór undir hraun, hraunjaðarinn stöðvaðist við húsið Jaðar, hornið fór af húsinu Horn, og aðeins blátindurinn stóð upp úr af húsinu Blátindi. 

Það er athyglisvert að yfir fjörutíu ár liðu frá goslokum frá því Eyjamenn fóru markvisst að gera út á gosið með byggingu Eldheima, en safnið var opnað fyrir þremur árum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×