Erlent

Jarðskjálfti og flóðbylgja á Vestur-Grænlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Grænlandi.
Frá Grænlandi. Vísir/AFP
Rýming stendur nú yfir í þorpum á vesturhluta Grænlands vegna flóðbylgna af völdum jarðskjálfta sem reið þar yfir í gær. Grænlenski fjölmiðillinn KNR segir að fólk hafi slasast að þær fréttir hafa ekki verið staðfestar af lögreglu.

Danska ríkisútvarpið DR segir að jarðskjálftinn hafi verið fjórir að stærð. Hann olli miklum sjávarflóðum í Nuugaatsiaq og miklum öldum í þorpunum Uummannaq og Illorsuit. KNR segir að skjálftinn hafi riðið yfir um klukkan 23 í gærkvöldi.

Íbúum í fjörðunum í kringum Uummnnaq var ráðlagt að halda sig frá ströndinni vegna hættu á eftirskjálftum. Í morgun fengu þeir þau skilaboð að þeir gætu snúið heim en að vera tilbúnir að flýja aftur.

Haft er eftir Tine Dahl Jensen, jarðvísindamanni hjá Jarðfræðistofnun Danmerkur og Grænlands, að svo stórir jarðskjálftar séu ekki algengir á Grænlandi. Grænlendingar þekki hins vegar flóðbylgjur vel en þær myndast til dæmis þegar ísjakar kelfast af jöklum út í sjó.

Hún segist ekki geta útilokað frekari flóðbylgjur.

Uppfært 11:27

Grænlenska útvarpið KNR segir að Nuugaatsiaq hafi orðið verst úti í flóðunum sem urðu í nótt. Yfirvöld eru nú að ljúka brottflutning íbúa þaðan. Þegar hafa 39 af 100 íbúum þorpsins verið fluttir til Uummanaq.

Íbúi í Uummannaq deildi meðfylgjandi myndbandi á Facebook af því þegar flóðbylgja gekk á land.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×