Erlent

Svona bregðast bandarísku stórfyrirtækin við ákvörðun Trump

Atli Ísleifsson skrifar
Mark Zuckerberg, Elon Musk, Robert A. Iger og Tim Cook.
Mark Zuckerberg, Elon Musk, Robert A. Iger og Tim Cook. Vísir/AFP
Fjölmörg bandarísk stórfyrirtæki hafa lýst yfir andstöðu við ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta að draga Bandaríkin út úr Parísarsamningnum um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Segja forsvarsmenn fyrirtækjanna að þau munu áfram vinna að því að markmið samningsins náist.

Auk þess að lýsa yfir andstöðu við stefnu Bandaríkjastjórnar hafa bæði Elon Musk, forstjóri Tesla og SpaceX, og Robert A. Iger, forstjóri Disney, sagt sig úr ráðgjafanefndum Trump forseta.

„Loftslagsbreytingar eru staðreynd. Það er bæði slæmt fyrir Bandaríkin og heiminn allan að draga sig úr Parísarsamningnum,“ segir Musk.

Iger segist segja sig úr nefndum af prinsippástæðum.

Trump hefur talað fyrir því að það sé í þágu bandarísks efnahags að draga sig úr Parísarsamningnum, en stórfyrirtækin hafa mörg hvatt Trump til að hugsa til framtíðar.

25 fyrirtæki – meðal annars Apple, Facebook, Google og Microsoft – birtu í maí heilsíðuauglýsingu í New York Times, Wall Street Journal og New York Post þar sem þau útlistuðu kosti Parísarsamningsins fyrir þau sem alþjóðleg fyrirtæki. Sögðu þau að með samningnum yrðu fyrirtækin samkeppnishæfari og að hann skapaði vöxt.

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, sagði á Facebook-síðu sinni að ákvörðun Trump væri slæm fyrir umhverfið og stofna framtíð barna okkar í hættu.

Sundar Pichai, forstjóri Google, segist hafa orðið fyrir vonbrigðum og að Google muni áfram vinna að hreinni og hagsælli framtíð fyrir okkur öll.

Tim Cook, forstjóri Apple, tekur í svipaðan streng og aðrir forstjórar stærstu tæknifyrirtækjanna í Bandaríkjunum.

Önnur fyrirtæki sem hafa lýst yfir óánægju með ákvörðun Trump eru Microsoft, Amazon, Murray Energy, Uber, IBM, Shell, Peabody Energy og Cargill.


Tengdar fréttir

Halda ótrauð áfram án Donalds Trump

Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að landið segi sig frá Parísarsamkomulaginu. Ber fyrir sig efnahagslegar byrðar. Evrópa og Kína undirbúa sameiginlega yfirlýsingu.

Bandaríkin hætta aðild að Parísarsamkomulaginu

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti á sjöunda tímanum á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í kvöld að Bandaríkin hygðust draga sig út úr Parísarsamkomulaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×