Sport

Íþróttafræðin í HR hjálpar Söru að undirbúa sig fyrir Heimsleikana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir sést hér í rannsókninni hjá Íþróttafræðinni í HR.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir sést hér í rannsókninni hjá Íþróttafræðinni í HR. Mynd/Fésbókarsíða Íþróttafræðinnar í HR
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir tryggði sér sæti á Heimsleikunum í Crossfit á dögunum með glæsilegum hætti eða með því að vinna Miðriðilinn í svæðiskeppni Bandaríkjanna.

Ragnheiður Sara hefur tryggt sig inn á Heimsleikana síðustu tvö ár með því að vinna Evrópuriðilinn en hún er nú flutt til Bandaríkjanna og fer nú í gegnum svæðiskeppnina þar. Miðriðillinn fór fram í kántrí-borginni Nashville í Nashville-fylki.

Ragnheiður Sara hefur endað í þriðja sæti á Heimsleikunum undanfarin tvö ár en leitar nú allra ráða til að vinna titilinn hraustasta kona heims í fyrsta sinn. Sara hefur æft vel og er í frábæru formi en vill gera enn betur.

Ragnheiður Sara kom í gær í heimsókn til Íþróttafræðinnar hjá Háskólanum í Reykjavík með það markmið að finna hluti sem hún getur lagað til að ná enn betri árangri. Gunnar Nelson heimsótti HR á dögunum og fór þá í gegnum svipaða rannsókn.

Fólkið í íþróttafræðinni mældi Söru í bak og fyrir og gat strax gefið henni ráð.

„Að loknum mælingum þá skoðuðum við niðurstöðurnar og bentum Söru á nokkra hluti sem hún getur sett inn í sína þjálfun til þess að gera hana enn markvissari. Það var frábært að fá Söru í heimsókn í HR. Heiður að fá að vinna með slíkri íþróttakonu. Við munum fylgjast spennt með Crossfit leikunum!,“ segir í frétt um heimsóknina á fésbókarsíðu Íþróttafræðinnar hjá HR.

Heimsleikarnir í Crossfit fara síðan fram í Alliant Energy Center í Madison í Wisconsin-fylki frá 1. til 6. ágúst næstkomandi. Þeir hafa verið í Kaliforníu undanfarin ár en fara nú í fyrsta sinn fram á þessum stað.



 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×