Íslenski boltinn

Milos Milojevic ráðinn þjálfari Breiðabliks

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Milos Milojevic var ekki lengi án starfs.
Milos Milojevic var ekki lengi án starfs. vísir/vilhelm
Breiðablik er búið að ganga frá þjálfararáðningu en liðið hefur verið þjálfaralaust síðan það lét Arnar Grétarsson fara eftir tvær umferðir í Pepsi-deildinni.

Milos Milojevic, fyrrverandi þjálfari Víkings í Reykjavík, var í dag ráðinn þjálfari Breiðabliks. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins. Ekki er tekið fram hversu langur samningurinn er.

Olgeir Sigurgeirsson, fyrrverandi leikmaður Blika og núverandi þjálfari í 2. flokk félagsins, verður aðstoðarmaður Serbans hjá meistaraflokknum.

Milos sagði upp störfum sem þjálfari Víkings á föstudaginn eftir þrjá tapleiki í röð í Pepsi-deildinni en „óyfirstíganlegur ágreiningur“ hans og stjórnar Fossvogsliðsins var sögð ástæða uppsagnarinnar.

Serbinn 35 ára gamli tók við aðalþjálfarastarfinu hjá Víkingum um mitt sumar 2015 þegar Ólafur Þórðarson var látinn fara en hann var áður aðstoðarmaður hans. Saman komu þeir Víkingsliðinu upp úr 1. deildinni 2013 og í Evrópukeppni sem nýliðar í Pepsi-deildinni árið 2014.

Undir stjórn Milosar hélt liðið sér uppi þrátt fyrir erfiða stöðu um mitt mót árið 2015 og í fyrra settu Víkingar stigamet þegar þeir náðu í 32 stig í Pepsi-deildinni og höfnuðu í sjöunda sæti.

Sigurður Víðisson hefur stýrt Breiðabliki í undanförnum þremur leikjum í deild og bikar. Tveir fyrstu töpuðust en Blikar unnu slag þjálfaralausu liðanna í Víkinni í gær, 3-2. Það var fyrsti sigur Breiðabliks í Víkinni síðan árið 1991. Þetta var jafnframt fyrsti sigur Blika í Pepsi-deildinni í sumar en þeir eru með þrjú stig eins og Víkingar.

Milos Milojevic kom fyrst til Íslands árið 2006 og lék þá með Hamri en hann gekk í raðir Víkings sem leikmaður árið 2010. Hann þjálfaði yngri flokka hjá félaginum, var yfirþjálfari og síðar aðalþjálfari.

Fyrsta verkefni Milosar sem þjálfari Breiðabliks verður útileikur á móti ÍA á mánudaginn kemur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×