Erlent

Lögreglan telur augljóst að árásarmaðurinn tengist stærra neti hryðjuverkamanna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Salman Abedi var fæddur árið 1994.
Salman Abedi var fæddur árið 1994.
Lögreglan í Manchester telur augljóst að Salman Abedi, maðurinn sem sprengdi sig í loft upp í anddyri Manchester Arena á mánudagskvöld, tengist stærra neti hryðjuverkamanna.

Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar nú síðdegis þegar Ian Hopkins, lögreglustjóri, var spurður að því hvort að verið væri að leita að öðrum manni sem gerði sprengjuna sem Abedi notaði, en breskir fjölmiðlar hafa greint frá því í dag að leitað væri að „sprengjugerðarmanni.“

Þannig telur öryggisblaðamaður BBC að Abedi hafi verið nokkurs konar burðardýr, það er að hann hafi ekki búið sprengjuna til sjálfur.

Segir son sinn saklausan

Þá gaf lögreglustjórinn ekki upp hvort að lögreglan hefði fundið „sprengjuverksmiðjuna“ en sagði að lögreglan væri að leita ítarlega um alla Manchester-borg. Þannig var mikill viðbúnaður í miðborginni í dag vegna húsleitar lögreglu. 

Lögreglustjórinn staðfesti að lögreglukona hefði verið á meðal þeirra sem lést í árásinni en gaf ekki upp nafn hennar að svo stöddu.

AP-fréttastofan ræddi í dag við föður Abedi sem segir að sonur sinn sé saklaus. Þá sagði hann jafnframt að einn hinna handteknu væri annar sonur hans, hinn 23 ára gamli Ismail Abedi.

„Við trúum ekki á það að drepa saklaust fólk, þetta erum ekki við,“ sagði Abedi eldri við AP og staðfesti einnig að Abedi hefði verið í Líbíu fyrir sex vikum og hefði ætlað sér að fara til Sádi-Arabíu.

Eins og greint hefur verið frá hefur viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkaógnar verið hækkað í Bretlandi og hermenn verið kallaðir út. Alls hafa fjórir verið handteknir vegna árásarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×