Handbolti

Sautján ára strákur fékk 10 í einkunn fyrir fyrsta leikinn á stærsta sviðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson reynir skot í gær.
Gísli Þorgeir Kristjánsson reynir skot í gær. Vísir/Ernir
FH-ingar eru lentir 1-0 undir í úrslitaeinvíginu á móti Val eftir 28-24 tap á heimavelli í fyrsta leik lokaúrslita Olís-deildar karla í Kaplakrika í gær.

Margir FH-ingar náðu sér ekki á strik í leiknum en liðið hafði unnið fimm fyrstu leiki sína í úrslitakeppninni og alls níu leiki í röð í deild og úrslitakeppni.

Það var hinsvegar ekki mikið hægt að finna að frammistöðu hins sautján ára gamla Gísla Þorgeirs Kristjánssonar sem var þarna að spila sinn fyrsta leik í lokaúrslitum á ferlinum. Gísli er fæddur í júlí 1999 en lék nær óaðfinnanlega í gær.

HBstatz tók saman tölfræði úr leiknum í gær og er mjög athyglisvert að skoða frammistöðu Gísla í henni. Handboltinn á HBstatz mikið að þakka fyrir þetta enda lífga svona skemmtilegt upplýsingar mikið upp á umræðuna um íslenska handboltann sem glímir annars við meinlegan skort á upplýsingum.

Gísli Þorgeir Kristjánsson var besti maður vallarins samkvæmt tölfræðimati HBstatz. Hann var með 9,5 í heildareinkunn en fékk hvorki meira né minna en 10 fyrir sóknarleikinn.

Gísli skoraði 7 mörk úr aðeins 9 skotum í leiknum og bauð því upp á 78 prósent skotnýtingu. Ekkert marka hans komu úr vítum eða hraðaupphlaupum. Gísli skapaði einnig sjö skotfæri fyrir félaga sína og gaf 3 stoðsendingar án þess að tapa einum einasta bolta.

Besti varnarmaður leiksins var Valsmaðurinn Orri Freyr Gíslason sem fékk 7,9 í einkunnu fyrir varnarleik sinn en yngri bróðir hans, Ýmir Örn Gíslason, kom næstur með 7,7. Enginn annar fékk meira en 7 fyrir frammistöðu sína i vörninni.

Það er hægt að skoða tölfræði HBstatz úr leiknum með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×