Handbolti

Valsmenn biðla til stuðningsmanna sinna: Þú gerir ekkert gagn í sófanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er hart barist í leikjum FH og Vals.
Það er hart barist í leikjum FH og Vals. Vísir/Ernir
FH og Valur mætast í kvöld í þriðja leik sínum í úrslitaeinvígi Olís-deildar karla í handboltanum. Staðan er 1-1 og þetta er því algjör lykilleikur í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Liðið sem vinnur leikinn í Krikanum í kvöld vantar þá bara einn sigur til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn 2017.

Hinn kunni Valsmaður Brynjar Harðarson biðlar í dag til annarra Valsmanna á handboltasíðu Valsmanna á fésbókinni. Brynjar og Valsmenn vilja fá miklu fleiri Valsmenn í stúkuna.

Valsmenn voru nefnilega frekar fáir á fyrsta leiknum í Kaplakrika en nú þurfa þeir miklu meiri stuðning að mati Brynjars.

„Þú gerir ekkert gagn í sófanum en á pöllunum getur nærvera mín og þín ráðið úrslitum. Og svo eitt að lokum; deildu þessum pósti á alla vini og valsara og biddu þá að gera það sama.....koma svo,“ skrifar Brynjar meðal annars.





FH-ingar unnu síðasta leik sem fram fór á Hlíðarenda en þar náðu Hafnfirðingar að leysa hina rómuðu 5:1 vörn Valsmanna sem hefur farið svo illa með mörg lið í vetur. Nú verður spennandi að sjá hvort Valsmenn eigi svör við því í kvöld.

Valsmenn hafa ekki unnið Íslandsmeistaratitilinn í áratug eða síðan 2007. Þá unnu þeir hann í deildarkeppni en Valur vann úrslitakeppnina síðast árið 1998 eða fyrir 19 árum síðan.  FH-ingar hafa líka þurft að bíða en ekki eins lengi því þeir urðu síðast Íslandsmeistarar 2011.

Þriðji leikur FH og Vals hefst klukkan 20.00 í kvöld í Kaplakrika í Hafnafirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×