Handbolti

Guðlaugur: Dóri náði að koma pressu á dómarana

Smári Jökull Jónsson skrifar
Guðlaugur á bekknum í kvöld.
Guðlaugur á bekknum í kvöld. Vísir/Eyþór
Guðlaugur Arnarsson annar af þjálfurum Vals var svekktur eftir að Valsmenn misstu af tækifærinu að fagna Íslandsmeistaratitlinum á heimavelli í kvöld. FH lagði grunninn að sigrinum í fyrri hálfleik en þeir leiddu 19-12 í hálfleik.

„Auðvelda svarið er að við mætum með spennustigið of hátt í lokin og náum ekki frumkvæði varnarlega, náum ekki að brjóta nógu mikið á þeim,“ sagði Guðlaugur við Vísi þegar blaðamaður spurði hvað hefði vantað uppá hjá Val í upphafi leiks.

„Við erum að klikka á dauðafærum á sama tíma. Þeir halda frumkvæðinu í seinni hálfleik en við erum með hjarta og baráttu í leiknum allan tímann en munurinn var einfaldlega aðeins of mikill í hálfleik,“ bætti Guðlaugur við.

Töluvert  var af brottvísunum í kvöld og að lokum voru gestirnir búnir að fá 14 mínútur í hvíld gegn 10 mínútum Valsmanna. Fannst Guðlaugi dómararnir vera of harðir í sinni línu í kvöld?

„Mér fannst það. Mér fannst þeir henda okkur útaf fyrir mun minni sakir en FH. Við erum reknir útaf fyrir óíþróttamannslega framkomu þegar Ólafur Ægir fagnar þegar hann er búinn að brjóta í vörninni, FH-ingar eru að gera það nákvæmlega sama.“

„Dóri (Halldór Jóhann, þjálfari FH) náði að koma þessari pressu á dómarana með ummælum sínum í viðtölum eftir síðasta leik að það væri ekki verið að refsa okkur nóg. Það hlýtur að koma jafnvægi í þetta í næsta leik,“ bætti Guðlaugur við.

Oddaleikur liðanna um Íslandsmeistaratitilinn fer fram á sunnudag í Kaplakrika. Allir leikirnir í rimmunni til þessa hafa unnist á útivelli.

„Pressan verður jafn mikil á bæði lið á sunnudag. Það er bara úrslitaleikur og við hefðum auðvitað viljað klára þetta í dag. Við mættum ekki nógu klárir inn til að ná að klára þetta. Á sunnudaginn er bara stríð, allt eða ekkert og það er bara geðveikt,“ sagði Guðlaugur Arnarsson að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×