Handbolti

Tveir nýir markverðir í Mosfellsbæinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorgrímur Smári, Lárus Helgi og Kolbeinn Aron.
Þorgrímur Smári, Lárus Helgi og Kolbeinn Aron. vísir/anton/andri marinó/ernir
Handboltalið Aftureldingar í karlaflokki hefur samið við þrjá nýja leikmenn. Þetta eru bræðurnir Þorgrímur Smári og Lárus Helgi Ólafssynir og Kolbeinn Aron Ingibjargarson. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Bræðurnir hafa farið víða á undanförnum árum og léku t.a.m. saman hjá bæði Val og HK. Þorgrímur Smári, sem spilar fyrir utan, lék með norska B-deildarliðinu Runar Sandefjord á síðasta tímabili. Markvörðurinn Lárus Helgi hefur leikið með Gróttu undanfarin tvö ár.

Kolbeinn Aron, sem er markvörður eins og Lárus Helgi, kemur frá ÍBV. Hann varð Íslandsmeistari með ÍBV 2014 og bikarmeistari árið eftir.

Lárus Helgi og Kolbeinn Aron eru fengnir til Aftureldingar vegna þess að Davíð Svansson hefur lagt skóna á hilluna og ekki liggur fyrir hvort Kristófer Guðmundsson spilar á næsta tímabili vegna þrálátra meiðsla.

Auk bræðranna og Kolbeins Arons hefur Afturelding krækt í línumanninn Einar Inga Hrafnsson sem hefur leikið erlendis undanfarin ár.

Afturelding endaði í 4. sæti Olís-deildarinnar í vetur og féll svo úr leik fyrir FH í undanúrslitunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×