Erlent

Minntist eiginmanns síns: „Ég finn ekki fyrir hatri, Xavier“

Atli Ísleifsson skrifar
Etienne Cardiles ræddi ást Jugelé á tónlist, kvikmyndum og leikhúsi.
Etienne Cardiles ræddi ást Jugelé á tónlist, kvikmyndum og leikhúsi. Vísir/AFP
„Ég finn ekki fyrir hatri, Xavier, þar sem það væri ekki líkt þér,“ sagði Etienne Cardiles, eiginmaður lögreglumannsins Xavier Jugelé, sem var skotinn til bana á Champs-Élysées í síðustu viku, við sérstaka minningarathöfn um Jugelé í París í gær.

Í hjartnæmri ræðu sagði Cardiles að þegar fyrstu fréttir bárust um að lögreglumanni hafi verið ráðinn bani á Champs-Élysées hafi lítil rödd innra með honum sagt að um Xavier væri að ræða.

Cardiles sagðist ekki finna fyrir hatri og gerði hann orð Antoine Leiris þar að sínum, en eiginkona Leiris var ein þeirra sem lét lífið inni á tónleikastaðnum Bataclan í hryðjuverkaárásinni í París í nóvember 2015. Jugelé hafði einmitt verið á vakt nálægt Bataclan þegar sú árás átti sér stað.

„Þetta hatur, Xavier, ég ber það ekki í brjósti þar sem það er ekki það sem þú myndir finna. Þar sem það myndi stangast á við allt sem fékk hjarta þitt til að slá og ástæður þess að þú gekkst til liðs við lögregluna,“ sagði Cardiles og bætti við að það hafi verið sannfæring Xavier að aðstoða og vernda aðra.

Jugelé barðist ötullega fyrir réttindum hinsegin fólks og fór tvívegis til Grikklands til að starfa sem sjálfboðaliði við að aðstoða flóttafólk.

Cardiles ræddi einnig ást Jugelé á tónlist, kvikmyndum og leikhúsi. Rifjaði hann upp þegar Jugelé spilaði lög Britney Spears í botni og varði heilu dögunum í kvikmyndahúsum til að æfa sig í ensku. „Þú lifðir eins og stjarna, þú kveður eins og stjarna,“ sagði Cardiles.

Sjá má brot úr ræðunni að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×