Handbolti

Hefur bara gerst einu sinni áður og þá komu Haukarnir til baka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Þór Helgason skoraði fimm mörk í sigri Fram á Ásvöllum í gær.
Andri Þór Helgason skoraði fimm mörk í sigri Fram á Ásvöllum í gær. Vísir/Anton
Haukar hófu í gær titilvörn sína í úrslitakeppni Olís-deild karla í handbolta með tapi á heimavelli á móti Fram.Þessi úrslit þýða að Haukarnir munu mæta í Safamýri á þriðjudagskvöldið til þess að berjast fyrir lífi sínu.

Frá því að úrslitakeppnin var tekin upp í núverandi mynd árið 1992 hafa aðeins tveir aðrir ríkjandi Íslandsmeistarar byrjað úrslitakeppni á tapi þar af byrjaði annar þessara meistara á því að spila á útivelli.

Eyjamenn töpuðu fyrsta leik í úrslitakeppninni 2015 en sá leikur var á útivelli á móti Aftureldingu. Mosfellingar slógu meistarana síðan út 2-0.

Íslandsmeistarar hafa því aðeins tvisvar sinnum tapað fyrsta leik í úrslitakeppni á heimavelli. Í gær og svo í úrslitakeppninni fyrir átta árum. Svo vill til að sá leikur var á milli sömu liða og á sama stað. Framarar vona þó að niðurstaða einvígisins verði ekki sú sama.

Haukar voru þá Íslandsmeistarar og fengu Framara í heimsókn á Ásvelli. Framarar unnu 32-28 sigur á ríkjandi Íslandsmeisturum Hauka. Þetta var reyndar undanúrslitaeinvígi því engin átta liða úrslit voru í úrslitakeppninni 2009.

Í gær unnu Framarar eins marks sigur á Íslandsmeisturum Hauka, 33-32, eftir framlengdan leik í fyrsta leiknum í einvígi þeirra í átta liða úrslitum. Það þarf bara að vinna tvo leiki í þessari seríu og svo var einnig í undanúrslitunum fyrir átta árum.

Haukarnir geta huggað sig við það að fyrir átta árum þá fóru þeir í Safamýrina tryggðu sér oddaleik með 26-23 sigri og unnu síðan oddaleikinn sannfærandi með níu marka mun, 30-21.

Haukarnir gerðu betur en það því fóru síðan alla leið og urðu Íslandsmeistarar annað árið í röð eftir 3-1 sigur á Valsmönnum í úrslitaeinvíginu.



Fyrsti leikur ríkjandi Íslandsmeistara í úrslitakeppni:

Valur 1992: Komst ekki í úrslitakeppni

FH 1993: 29-26 sigur á Víkingi á heimavelli

Valur 1994: 21-20 sigur á Stjörnunni á heimavelli

Valur 1995: 20-14 sigur á Haukum á heimavelli

Valur 1996: 25-22 sigur á Gróttu á heimavelli

Valur 1997: Komst ekki í úrslitakeppni

KA 1998: 21-20 sigur á Stjörnunni á heimavelli

Valur 1999: Komst ekki í úrslitakeppni

Afturelding 2000: 19-12 sigur á HK á heimavelli

Haukar 2001: 32-31 sigur á FH í framlengdum leik á heimavelli

Haukar 2002: 26-17 sigur á FH á heimavelli

KA 2003: 29-23 sigur á HK á heimavelli

Haukar 2004: 41-39 sigur á ÍBV á heimavelli

Haukar 2005: 29-22 sigur á FH á heimavelli

- Engin úrslitakeppni 2006-2008 -



Haukar 2009: 28-32 tap fyrir Fram á heimavelli

Haukar 2010: 22-20 sigur á HK á heimavelli

Haukar 2011: Komst ekki í úrslitakeppni

FH 2012: 26-25 sigur á Akureyri á heimavelli

HK 2013: Komst ekki í úrslitakeppni

Fram 2014: Komst ekki í úrslitakeppni

ÍBV 2015: 25-27 tap fyrir Aftureldingu á útivelli

Haukar 2016: 33-24 sigur á Akureyri á heimavelli

Haukar 2017: 32-33 tap fyrir Fram í framlengdum leik á heimavelli


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×