Handbolti

Arnar Birkir fékk eins leiks bann fyrir brotið á Hákoni Daða

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Birkir í leik Fram og Selfoss fyrr á tímabilinu.
Arnar Birkir í leik Fram og Selfoss fyrr á tímabilinu. vísir/ernir
Arnar Birkir Hálfdánarson, leikmaður Fram, var úrskurðaður í eins leiks bann vegna brots í leik Hauka og Fram í gær.

Á lokasekúndum framlengingarinnar braut Arnar Birkir gróflega á Hákoni Daða Styrmissyni, leikmanni Hauka. Víti var dæmt og Arnari Birki vísað af velli. Viktor Gísli Hallgrímsson, 16 ára markvörður Fram, varði vítið frá Guðmundi Árna Ólafssyni og tryggði Fram 32-33 sigur á Íslandsmeisturunum.

Arnar Birkir fékk útilokun með skýrslu en slapp með eins leiks bann. Arnar Birkir missir því af öðrum leik Fram og Hauka á morgun en nær oddaleiknum, ef af honum verður, á laugardaginn.

Brot Arnars Birkis má sjá í myndbandinu hér að neðan. Það hefst á 2:22:07.

Þá missir Þráinn Orri Jónsson, leikmaður Gróttu, af öðrum leik Gróttu og FH á morgun vegna rauða spjaldsins sem hann fékk gegn Fram í lokaumferð Olís-deildarinnar.

Stephen Nielsen, markvörður ÍBV, slapp hins vegar við bann þrátt fyrir að hafa fengið útilokun með skýrslu vegna óíþróttamannslegrar framkomu í leik Vals og ÍBV í lokaumferð Olís-deildarinnar.

Þá barst aganefnd erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ vegna framkomu áhorfenda í leik ÍBV og Vals í gær. Niðrandi orð voru ítrekað höfð um þjálfara Vals. ÍBV var gefinn kostur á að koma með greinargerð og fyrirtöku var því frestað til morguns.


Tengdar fréttir

Óskar Bjarni: Ég hef húmor fyrir þessu

Óskar Bjarni Óskarsson annar af þjálfurum Vals sagði sitt lið eiga mikið inni miðað við leikinn í dag en ÍBV vann átta marka sigur og getur tryggt sér sæti í undanúrslitum með sigri í leik liðanna á miðvikudag.

„Fokkaðu þér“

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, lét kollega sinn hjá Valsmönnum, Óskar Bjarna Óskarsson, heyra það svo um munaði í leik liðanna í Olís-deild karla í gær.

Hefur bara gerst einu sinni áður og þá komu Haukarnir til baka

Haukar hófu í gær titilvörn sína í úrslitakeppni Olís-deild karla í handbolta með tapi á heimavelli á móti Fram.Þessi úrslit þýða að Haukarnir munu mæta í Safamýri á þriðjudagskvöldið til þess að berjast fyrir lífi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×