Hundruðir ungra karlmanna frá afríkulöndum sunnan Sahara hafa verið seldir á þrælamörkuðum í Líbíu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðlegu fólksflutningastofnuninnar, IOM. Oftast er um að ræða flóttamenn sem eru að reyna að komast til Evrópu.
Í skýrslunni er meðal annars rætt við fórnarlömb slíks mansals sem segjast hafa verið tekin til fanga af smyglurum eða uppreisnarhermönnum og seldir á torgum eða bílastæðageymslum.
Yfirmaður IOM í Lýbíu sagði í samtali við BBC að einstaklingar með fagkunnáttu við málningar, flísalagningu eða annað slíkt, væru seldir hærra verði en aðrir.
Maður frá Senegal, sem IOM ræddi við, sagðist hafa verið seldur á slíkum markaði í borginni Sabha í suður Líbíu og því næst verið færður í einskonar fangelsi þar sem meira en 100 manns var haldið í gíslingu. Konur voru einnig seldar á slíkum mörkuðum, iðulega í kynlífsþrælkun.
„Þeir staðfestu allir að eiga í hættu á að vera seldir í þrælahald á torgum og í bílageymslum í Sabha, annaðhvort af bílstjórum sínum eða af heimamönnum sem ráða flóttafólk í dagbundin störf, oft í iðnaðarverk,“ er haft eftir starfsmanni IOM í frétt á vef BBC.
„Seinna, í stað þess að greiða þeim laun, selja þeir fórnarlömbin áfram til nýrra kaupenda.“
Flóttafólk selt á þrælamörkuðum
Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
