Handbolti

Aldrei hefur lið sem endaði jafn neðarlega sent Íslandsmeistarana í sumarfrí

Ingvi Þór Sæmundsson og Óskar Ófeigur Jónsson skrifa
Guðmundur Helgi Pálsson hefur gert frábæra hluti með Fram.
Guðmundur Helgi Pálsson hefur gert frábæra hluti með Fram. vísir/anton
Fram braut blað í sögu úrslitakeppni karla í handbolta þegar liðið vann Íslandsmeistara Hauka, 45-47, í oddaleik í 8-liða úrslitum í gær.

Fram hefur komið gríðarlega á óvart í vetur en fyrir tímabilið bjuggust flestir við því að liðið færi niður í 1. deild, enda búnir að missa marga leikmenn frá tímabilinu á undan.

Fram skaust upp í 6. sæti Olís-deildarinnar með sigri á Gróttu í lokaumferðinni og fékk að launum leiki við Íslandsmeistarana í 8-liða úrslitum.

Frammarar voru ekkert hættir og gerðu sér lítið fyrir og sendu Hauka í sumarfrí eftir sigur í vítakastkeppni í gær.

Þetta er í fyrsta skipti í átta liða úrslitakeppni sem Íslandsmeistarar falla úr leik fyrir liði sem endaði jafn neðarlega í deildakeppninni og Fram gerði í ár.

Raunar hefur það bara sjö sinnum gerst í sögu úrslitakeppninnar að lið sem endar í 6. sæti eða neðar komist áfram í undanúrslit.

Það gerðist tvisvar í ár en Valur, sem endaði í 7. sæti Olís-deildarinnar, sló liðið í 2. sæti, ÍBV, einnig út í gær.

Fram og Valur mætast einmitt í undanúrslitunum þar sem Frammarar eru með heimaleikjaréttinn, þrátt fyrir að hafa endað í 6. sæti í Olís-deildinni.

Lið 6. sæti og neðar áfram í gegnum 8-liða úrslit:

ÍR 1993 (6. sæti) - sló Stjörnuna (3.) út 2-0

KA 1995 (6. sæti) - sló Stjörnuna (3.) út 2-1 og fór alla leið í úrslit

Afturelding 1996 (6. sæti) - sló Stjörnuna (3.) út 2-1

FH 1999 (7. sæti) - sló Stjörnuna (2.) út 2-1 og fór alla leið í úrslit

Valur 2001 (7. sæti) - sló Fram (2.) út 2-0

Fram 2017 (6. sæti) - sló Hauka (3.) út 2-1

Valur 2017 (7. sæti) - sló ÍBV (2.) út 2-1


Tengdar fréttir

Andri: Þakka ykkur fyrir að hafa spáð okkur svona slöku gengi

„Þetta er held ég mesta rugl sem ég hef lent í. Þvílíkur draumur að ná klára þennan leik, en ég held að við höfðum átt það skilið,” sagði Andri Þór Helgason, einn af markahæstu mönnum Fram í dag, þegar liðið sló út Íslandsmeistara Hauka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×