Glögg móðir í gjafahugleiðingum fyrir son sinn tók eftir því þegar hún fletti blöðunum í morgun að Hvolpasveitartrukkur var auglýstur til sölu í Nettó á mun lægra verði en í Toys R Us þar sem hún hefur haft augastað á gripnum.
Ástæðan er sú að sonur hennar ungur er mikill áhugamaður um hvolpana. Auglýsingin er í tilefni Sumardagsins fyrsta og er trukkurinn auglýstur á 6305 krónur í Nettó með afslætti en hefðbundið verð er 6998 krónur. Trukkurinn kostar 14990 krónur í Toys R Us.
Því miður, fyrir mömmuna sem hafði fundið hina fullkomnu Sumardagsgjöf á viðráðanlegu verði, reyndist um mistök að ræða. Hallur Geir Heiðarsson, rekstarstjóri Nettó, athugaði málið eftir fyrirspurn Vísis um hinn mikla verðmun og í ljós kom að mynd af röngum trukki hafði verið settur á auglýsinguna. Sá sem er á myndinni hefur ekki verið til sölu hjá Nettó síðan í desember.
Um mannleg mistök sé að ræða og hefur starfsfólk í verslunum Nettó verið upplýst um málið að sögn Halls.
Sem fyrr segir kostar trukkurinn 14990 krónur í Toys R Us á Íslandi en er aðeins ódýrari á hinum Norðurlöndunum, kostar í kringum 13000 krónur. Í Bandaríkjunum er verðið á trukknum hins vegar mun lægra eða um 6000 krónur.
Óhætt er að segja að miklar tilfinningar geti verið í spilunum þegar heimilisvinurinn Hvolpasveitin er annars vegar. Er skemmst að minnast þess þegar umsjónarmaður Morgunútvarpsins baðst afsökunar á ummælum sínum í þættinum þess efnis að þættirnir væru leiðinlegir.
