Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Valur - ÍBV 29-30 | Eyjamenn unnu en náðu ekki í titilinn

Stefán Árni Pálsson í Valshöllinni skrifar
Kári Kristján var fínn í kvöld.
Kári Kristján var fínn í kvöld. vísir/eyþór
Eyjamenn unnu góðan sigur, 30-29, á Val í lokaumferð Olís-deildar karla í Valsheimilinu í kvöld. Heimamenn voru með fín tök á leiknum í fyrri hálfleiknum en Eyjamenn komu til baka í þeim síðari.

Eyjamenn áttu möguleika á því að verða deildarmeistarar í kvöld en það var ekki að sjá á leik þeirra fyrstu þrjátíu mínútur leiksins. Staðan í hálfleik var 18-12 fyrir Val léku þeir á alls oddi í þeim fyrri.

Eyjamenn komu heldur betur ákveðnir út í síðari hálfleikinn og tók þá um korter að komast yfir 23-22. Lokamínútur leiksins voru mjög spennandi en ÍBV vann að lokum frábæran sigur 30-29 eftir rosalegan leik sem fór alveg úr böndunum undir lokin.

Menn misstu hausinn hvað eftir annað. Atli Karl Bachmann og Theodór Sigurbjörnsson gerðu báðir 11 mörk fyrir sín lið í kvöld.

Valsmenn hafna í sjöunda sæti deildarinnar en ÍBV í því öðru. Þessi lið mætast því í 8-liða úrslitum og miðað við leikinn í kvöld verður það einvígi rosalegt. 

Hér að neðan má lesa beina textalýsingu frá því í kvöld. 

Theodór: Þurfum að hætta væla í dómurunum„Þetta var svolítið tvískiptur leikur. Við erum mjög daprir í fyrri hálfleik og erum að láta reka okkur útaf og erum að missa hausinn,“ segir Theodór Sigurbjörnsson, leikmaður ÍBV, eftir sigurinn. 

„Þegar við erum svona mikið að væla í dómurunum þá erum við ekkert góðir og náum ekki að halda einbeitingu. Við vorum lítið að pæla í þessum deildarmeistaratitli í kvöld. Við vissum bara að það væri að byrja nýtt mót á sunnudaginn og við viljum vera klárir.“

Hann segir að Eyjaliðið verði að hætta að einbeita sér svona að dómurum leiksins. 

„Við hættum að væla í seinni hálfleik og leyfðum leiknum aðeins að fljóta og þá gekk okkur mun betur.“

Theodór er spenntur fyrir einvíginu á móti Val.

„Þetta verður bara hörku einvígi og gott fyrir íslenskan handbolta að fá svona einvígi í átta liða úrslitum. Við erum komnir á ágætan stað en eigum samt smá inni.“

Guðlaugur: ÍBV er lið sem á að verða Íslandsmeistari á pappír„Það var svolítið eins og það væri rosalega mikið undir hér í kvöld og menn voru vel gíraðir,“ segir Guðlaugur Arnarsson, annarr þjálfari Vals, eftir tapið í kvöld. 

„Eftir virkilega góðan fyrri hálfleik þá töpum við samt sem áður leiknum og það er eitthvað sem við þurfum að vinna úr.“

Hann segir að Valsmenn komi vel stemdir inn í úrslitakeppnina.

„Þetta eru allt úrslitaleikir og við þurfum að nýta okkar reynslu úr Evrópukeppninni í næstu leikjum.“

Hann segir að ÍBV sé sennilega best mannaða lið landsins. 

„Við erum að fara á erfiðasta útivöll landsins og þurfum heldur betur að eiga góða leiki til að eiga möguleiki. Við verðum að vinna leik úti í Eyjum og það verður erfitt. ÍBV er lið sem á að verða Íslandsmeistari á pappír.“

Leik lokið 29-30: ÍBV vinnur góðan sigur. 

27-30 (60.mín): ÍBV að klára þennan leik.



59.mín - Rautt spjald: Stephen Nielsen fær boltann í andlitið þegar brotið á á Alexander Erni Júlíssyni. Hann bregst illa við og hrindir honum. Nielsen fær beint rautt og það verður allt vitlaust. Þjálfarar liðanna segja hvor öðrum að fokka sér og halda kjafti.

26-30 (57.mín): Teddi með enn eitt markið fyrir ÍBV. Kominn með 11 stykki.

25-28 (56.mín): Atli Karl stelur boltanum og hendir í autt markið. Tíunda mark hans í kvöld. 

24-27 (54.mín): Eyjamenn eru að klára þetta. 

24-26 (53.mín): Theodór með frábært mark. Hann er kominn með tíu mörk. Þvílíkur leikmaður.

24-24 (50.mín): Alexander Örn Júlíusson jafnar metin með frábæru marki.

23-23 (47.mín): Atli Már Báruson með fínt mark fyrir Valsmenn og jafnar.

22-23 (46.mín): Kári Kristján skorar af línunni fyrir ÍBV og kemur þeim yfir. 

22-22 (43.min): Agnar Smári Jónsson með frábært mark og jafnar metin fyrir ÍBV.

21-20 (40.mín): Sigurbergur Sveinsson með frábært mark stöngin inn. Munar aðeins einu marki

21-18 (39.mín): Atli Karl með sitt níunda mark í kvöld. Fyrir leikinn í kvöld hafði hann skorað 25 mörk í öllum leikjum vetrarins í Olís-deildinni.

20-18 (38.mín): Valur tekur leikhlé. Það gengur ekkert upp.

20-17 (37.mín): Theodór með mark úr hraðaupphlaupi. Þeir eru að keyra yfir Valsmenn núna sem hafa tapað fimm boltum í röð.

20-15 (35.mín): Stephen Nielsen að verja víti fyrir ÍBV. Vel gert. 

20-15 (34.mín): Eyjamenn koma vel inn í þennan síðari hálfleik. 

Hálfleikur 18-12 (30.mín): Valsmenn með fín tök á þessum leik. Eyjamenn hafa ekki fundið taktinn. 

16-12 (27.mín): Josip með mark úr vítakasti, mjög öruggt.

15-10 (25.mín): Atli Karl með sitt fimmta mark. Valsmenn að ná tökum á þessum leik. 

13-9 (23.mín): Vignir Stefánsson með fínt mark og sitt fjórða.

12-9 (22.mín): Sveinn Jose Rivera skorar fínt mark á línunni. 

11-8 (21.mín): Gric með sitt annað mark í röð.

9-7 (18.mín): Josip Juric Gric er fínt mark fyrir utan teig. Lyftir sér upp og þrumar honum í netið.

8-6 (16.mín): Alexander Örn Júlíusson með fínt mark fyrir Valsmenn. 

6-6 (14.mín): Kári Kristján með fínt mark á línunni og Theodór skorar síðan strax í kjölfarið. Jafnt.

5-3 (10.mín): Theodór Sigurbjörnsson með mark eftir flott hraðaupphlaup og minnkar þetta í tvö mörk.

5-1 (9.mín): Valsmenn að byrja þennan leik vel. Vignir með þrjú og Atli Karl Bachmann að skora. Þetta kemur allt úr hröðum sóknum. 

2-1 (7.mín): Vignir Stefánsson með bæði mörk Vals eftir hraðaupphlaup.

1-1 (5.mín): Liðin í stökustu vandræðum með að skora mark. Markverðirnir góðir á fyrstu mínútunum. 

1-0 (2.mín): Vignir Stefánsson með fyrsta mark leiksins eftir að bæði lið klúðruðu fyrstu færunum sínum.

0-0 (1.mín): Þá er þessi leikur farinn af stað.

Fyrir leik: Valsmenn hafa gefið hressilega eftir í deildinni að undanförnu, m.a. vegna þátttöku í Áskorendabikar Evrópu þar sem liðið er komið í undanúrslit. Valur getur náð 5. sætinu vinni liðið ÍBV og Selfoss tapar fyrir FH á sama tíma. Valsmenn geta einnig misst 6. sætið í hendur Gróttu eða Fram. Þeir geta hins vegar ekki endað neðar en í 7. sæti.

Fyrir leik: Eyjamenn fóru illa að ráði sínu þegar þeir gerðu jafntefli við Akureyri á heimavelli í síðustu umferð. Fyrir vikið þurfa þeir að treysta á hjálp frá Selfyssingum til að verða deildarmeistarar. Til að það gerist þarf ÍBV að vinna Val og treysta á að FH tapi fyrir Selfossi.

Fyrir leik: Leikmenn komnir út á gólf og farnir að hita upp.

Fyrir leik: Heilir og sælir áhorfendur góðir og verið velkomnir til leiks með Boltavakt Vísir á leik Vals og ÍBV í lokaumferð Olís-deildar karla. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×