Handbolti

Halldór: Ef við getum orðið deildarmeistarar getum við orðið Íslandsmeistarar

Ingvi Þór Sæmundsson í Kaplakrika skrifar
Halldór var að vonum sigurreifur í leikslok.
Halldór var að vonum sigurreifur í leikslok. vísir/ernir
„Við töluðum um að þetta væri hægt en vissum að það þyrfti ansi margt að ganga upp,“ sagði Halldór Sigfússon, þjálfari FH, aðspurður hvort hann hefði gert ráð fyrir að standa uppi sem deildarmeistari fyrir tímabilið.

„Við lentum í smá meiðslavandræðum á kafla og ungir menn fá mikla ábyrgð. En við stöndum samt uppi sem deildarmeistarar og mér finnst það gríðarlegt afrek,“ sagði Halldór eftir sigurinn á Selfossi í kvöld.

FH sýndi mikinn stöðugleika eftir áramót og vann níu af síðustu 11 leikjum sínum.

„Þegar við vorum búnir að fá alla inn jókst breiddin og við urðum ennþá þéttari og betri. Vonandi heldur það áfram,“ sagði Halldór. En getur FH farið alla leið og orðið Íslandsmeistari?

„Ef við getum orðið deildarmeistarar getum við svo sannarlega orðið Íslandsmeistarar. Það er ekki spurning. En núna kemur bara ný keppni og nýr mótherji. Við fögnum vel í kvöld en svo byrjar bara undirbúningurinn, allavega hjá þjálfurunum, strax í fyrramálið,“ sagði Halldór.

Hann segist ekki hafa áhyggjur af því að FH sé að toppa of snemma.

„Ég hef engar áhyggjur af því. Þetta er einn af stóru titlunum og það lið sem verður deildarmeistari er stöðugasta liðið heilt yfir. En við vitum að í úrslitakeppninni skiptir dagsform miklu máli og ýmsir hlutir spila inn í,“ sagði Halldór að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×