Handbolti

Fjölnismenn kláruðu tímabilið með stæl | Þróttur kominn í umspilið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristján Örn Kristjánsson	 og félagar í Fjölni leika í Olís-deildinni á næsta tímabili.
Kristján Örn Kristjánsson og félagar í Fjölni leika í Olís-deildinni á næsta tímabili. vísir/stefán
Fjölnir kláraði tímabilið í 1. deild karla í handbolta á viðeigandi hátt; með 11 marka sigri á Mílunni, 32-21, í Dalhúsum í kvöld.

Fjölnir tryggði sér sæti í Olís-deildinni með sigri á Akureyri U í 17. umferðinni en síðan gáfu Grafarvogsbúar eftir og fengu aðeins eitt stig út úr næstu fjórum leikjum.

Fjölnismenn risu sig svo upp í kvöld og unnu öruggan sigur á botnliði deildarinnar. Brynjar Loftsson skoraði átta mörk fyrir Fjölni og Björgvin Páll Rúnarsson sjö.

ÍR, sem var öruggt með 2. sætið, rúllaði yfir HK, 31-21, í Austurberginu. Ingi Rafn Róbertsson skoraði 10 mörk fyrir ÍR en Kristófer Dagur Sigurðsson var atkvæðamestur hjá HK með fjögur mörk.

Þróttur tryggði sér sæti í umspili um sæti í Olís-deildinni með naumum sigri á Hömrunum, 22-23, fyrir norðan. Víkingar eru einnig komnir í umspilið þrátt fyrir tap fyrir ÍBV U í kvöld, 27-25.

Síðasti leikur deildarkeppninnar fer fram í DHL-höllinni á morgun þegar KR tekur á móti Val U. Með sigri tryggja KR-ingar sér 3. sætið og sæti í umspilinu og skilja HK-inga eftir með sárt ennið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×