Handbolti

Einar Rafn: Maður er í íþróttum fyrir stundir eins og þessar

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Einar, hér til vinstri, skoraði sigurmark FH í kvöld.
Einar, hér til vinstri, skoraði sigurmark FH í kvöld. Vísir/ernir
„Þetta stóð heldur betur tæpt, þetta var hrikalega erfiður leikur en það sýndi mikinn karakter að ná að klára þennan leik,“ sagði Einar Rafn Eiðsson, hetja FH að leikslokum.

Seltirningar fengu færi til að stela sigrinum á lokamínútunum gegn deildarmeisturunum.

„Þetta er algjörlega nýtt mót og það eru allir á sama byrjunarpunkti. Þeir gáfu allt sem þeir áttu í þetta og við féllum svolítið niður á þeirra plan að spila hægan bolta, það vantaði svolítið upp á hraðann.“

Sjá einnig: Umfjöllun og viðtöl: FH - Grótta 27-26 | FH-ingar sluppu með skrekkinn

Einar sagði að það væri margt sem mætti fara betur.

„Við erum að gera allt of mikið af klaufalegum mistökum, við vorum endalaust að missa línumanninn hjá þeim þar sem við gleymum okkur. Þetta mun ekki gerast aftur og sem betur fer náðum við að landa sigrinum,“ sagði Einar sem sagði liðið einnig gera mistök í sóknarleiknum.

„Við náum góðu forskoti en hættum svo að reyna að keyra hratt á þá og í bakið á þeim, við fórum að spila hægt sem hentar þeim betur. Við erum allir í frábæru formi og eigum að geta haldið hraðanum betur og klárað leikinn þar.“

Einar sagði tilfinninguna frábæra að fá að fara á vítalínuna með leikinn í höndunum þegar svona stutt var eftir.

„Tilfinningin var auðvitað bara geggjuð, menn eru í íþróttum fyrir stundir eins og þessar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×