Sport

Björk bikarmeistari í fyrsta sinn í 18 ár

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
mynd/facebook-síða fimleikasambands íslands
Bikarmót fimleikasambandssins fór fram nú um helgina. Fimleikafélagið Björk úr Hafnarfirði vann í frjálsum æfingum kvenna og Gerpla úr Kópavogi vann tvöfaldan sigur í karlaflokki.

Björk og Ármann háðu harða keppni í kvennaflokki og skiptust á forystunni lengst af. Björk hafði betur á síðustu metrunum og Gerpla náði að hrifsa annað sætið af Ármanni með glæsilegum æfingum undir lokin.

Þetta var fyrsti bikarmeistaratitill Bjarkar frá árinu 1999 en þá hafði félagið unnið níu ár í röð.

Lokastaðan í kvennaflokki:

Björk 144.300 stig

Gerpla 142.300 stig

Ármann 140.500 stig

Hjá körlunum hafði Gerpla mikla yfirburði eins og fyrirfram var búist við. Raðaði félagið sér í tvö efstu sætin og var keppnin aldrei jöfn líkt og í kvennaflokki.

Garðar Egill Guðmundsson Gerplu varð stigahæstur í karlaflokki en þetta var hans fyrsta mót eftir langa glímu við meiðsli.

Annar keppandi sem snéri til baka var Jóhannes Níels Sigurðsson en hann tók fimleikabolinn fram eftir 20 ára hlé. Jóhannes þótti sýna lipra takta og vakti mikla kátínu annarra keppanda þegar hann tilkynnti einum andstæðingnum að hann hafi keppt í bikarliði með pabba hans.

Lokastaðan í karlaflokki:

Gerpla 1: 216.350 stig

Gerpla 2: 195.700 stig

Björk:  185.150 stig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×