Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Fram 28-27 | Stjarnan vann fallslaginn

Guðmundur Marinó Ingvarsson í Mýrinni skrifar
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, mætir sínu gamla félagi í kvöld.
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, mætir sínu gamla félagi í kvöld. vísir/ernir
Stjarnan lagði Fram 28-27 á heimavelli í 22. umferð Olís-deildar karla í handbolta í kvöld. Jafnt var í hálfleik 14-14.

Fram skoraði tvö fyrstu mörk leiksins og var það í eina skiptið í fyrri hálfleik sem það munaði meira en einu marki á liðunum í hálfleiknum.

Markverðir Fram vörðu aðeins tvö skot allan fyrri hálfleikinn og því með ólíkindum að Stjarnan skildi ekki hafa verið yfir í hálfleik. Það skýrist að einhverju leiti af því að Stjarnan var 12 mínútur utan vallar í fyrri hálfleik og þar af sá Brynjar Jökull Guðmundsson rautt vegna þriggja brottvísana.

Það hjálpaði markvörðum Fram ekki að liðið lék framliggjandi varnarleik sem lauk yfirleitt með því að Stjarnan fékk dauðafæri eða liðið tapaði boltanum. Fram náði sjö fleiri skotum í átt að marki í fyrri hálfleik.

 Stjarnan byrjaði mun betur í seinni hálfleik og náði fjögurra marka forystu. Liðið virtist hafa öll völd á leiknum en það skal aldrei afskrifa Fram.

Fram átti í miklum vandræðum með að skora en vann forystu Stjörnunnar upp með góðum varnarleik og upp frá því var leikurinn jafn og spennandi allt til loka.

Fram náði að minnka muninn í eitt mark þegar rétt mínúta var til leiksloka og vinna boltann í kjölfarið. Guðmundur Helgi Pálsson þjálfari liðsins tók leikhlé og strax eftir það fékk Valdimar Sigurðsson boltann frá Arnari Birki Hálfdánarsyni dauðafrír á línunni en slakir dómarar leiksins Ramunas Morkunas og Þorleifur Árni Björnsson dæmdu aukakast og rændu Fram dauðafæri.

Fram náði ekki að skapa sér annað færi og aukakast liðsins eftir að leiktímanum lauk fór í varnarvegginn og framhjá.

Með sigrinum lyfti Stjarnan sér upp fyrir Selfoss í 6. sæti með 19 stig. Fram er áfram í næst neðsta sæti með 15 stig.

Einar: Ansi margir fjögurra stiga leikir í þessari deild„Þetta voru mjög kærkomin tvö stig. Þetta endaði okkar megin og er ég þakklátur fyrir það,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Stjörnunnar eftir sigurinn á Fram í kvöld.

„Það eru ansi margir fjögurra stiga leikir í þessari deild og þetta var einn af þeim. Nú erum við komnir eitthvað fyrir ofan Framarana en við þurfum að halda áfram.“

Það var mikið undir í leiknum og það sást á honum. Það var mikil spenna allan leikinn og leikmenn tilbúnir að selja sig dýrt.

„Mér fannst við vera komnir með góða stjórn á leiknum í seinni hálfleik fjórum mörkum yfir og litum vel út. Vörnin var að smella og Bubbi (Sveinbjörn Pétursson) góður og við fengum mikið af góðum færum sóknarlega.

„Svo kemur kafli þar sem við allir dettum úr sambandi og fáum fjögur mörk á okkur í röð á tveimur mínútum eða eitthvað. Þá var þetta leikur en sem betur fer vorum við með frumkvæðið. Ég held að það hafi hjálpað okkur í lokin,“ sagði Einar.

Framarar voru býsna ósáttir í lokin þegar þeim fannst þeir rændir dauðafæri af dómurum leiksins. Einar skildi gremju þeirra en gat bent á annað atvik skömmu áður sem hans lið átti að fá.

„Þeir dæma aukakast en við áttum að fá víti í síðustu sókninni okkar. Hann varði boltann meter inni í teig. Það er alltaf hægt að tína svona til. Ef við ætlum í þennan leik þá verð ég sennilega í viðtali langt fram eftir kvöldi en ég skil að þeir séu svekktir.“

Leikmenn Stjörnunnar voru sex sinnum reknir af leikvelli í fyrri hálfleik en áttu betur með að hanga inni á vellinum í seinni hálfleik.

„Við vorum fastir og taugarnar voru þandar og við aðeins hærra uppi. En maður veit aldrei hver línan hjá þessum dómurum er. Stundum erum við teknir og lamdir sundur og saman og þá þarf maður að hífa sig upp.

„Við erum komnir á það að það er hærra að pumpa sig niður heldur en að þurfa að gíra sig upp í slagsmál. Við erum klárir í hvað sem er og ég held að við höfum aðlagast línu dómaranna vel í seinni hálfleik. Það var kannski einn þáttur í því að ná að landa sigri í kvöld,“ sagði Einar að lokum.

Guðmundur: Við gefumst aldrei uppGuðmundur Helgi Pálsson þjálfari Fram var að vonum svekktur eftir tapið gegn Stjörnunni í kvöld og ekki síst að liðið hans var rænt dauðafæri til að jafna leikinn í síðustu sókn leiksins.

„Jú, algjörlega,“ sagði Guðmundur aðspurður hvort Framarar hafi verið rændir dauðafærinu. „Það á að leyfa mönnum að klára það sem þeir eru byrjaðir að gera. Það var ekki bara þetta atriði það var fullt af atriðum í leiknum.

„Ég tjái mig yfirleitt ekki um dómara. Þeir skoða þetta sjálfir og sjá hvað þeir geta gert betur og vita hvað þeir geta gert betur.

„Ég hugsa bara um mína menn. Við vorum ekki nógu góðir í kvöld. Okkur vantaði ákveðni. Við spiluðum vörn í um það bil korter og þá komumst við aftur inn í leikinn. Hitt var ekki nógu gott.

„Þegar vörnin er ekki í lagi þá er markvarslan ekki í lag. Auðvitað hefði maður viljað fá fleiri bolta varða en vörnin er fyrst og fremst það sem klikkaði.

„Við skorum alltaf í kringum 30 mörk en varnarleikurinn þarf að vera betri,“ sagði Guðmundur.

Fram átti í vandræðum með að skora í byrjun seinni hálfleiks og lenti fjórum mörkum undir en það skal enginn afskrifa Fram.

„Við gefumst aldrei upp. Það er mottó. Við gefumst heldur ekkert upp núna. Það eru fimm leikir eftir og eins og þetta er búið að vera í vetur þá geta allir unnið alla og á góðum degi getum við unnið alla. Við höldum bara áfram,“ sagði Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×