Handbolti

Hlynur: Tvöfaldur fögnuður í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson í Laugardalshöllinni skrifar
Hlynur varði 12 skot (44%) í bikarúrslitaleiknum.
Hlynur varði 12 skot (44%) í bikarúrslitaleiknum. vísir/andri marinó
Hlynur Morthens, markvörður Vals, var hæstánægður með bikarinn í hendi þegar blaðamaður Vísis hitti hann að máli eftir bikarúrslitaleikinn gegn Aftureldingu í dag.

„Þetta eru búnir að vera lygilegir dagar og allt svona jafnir leikir. Við kunnum að höndla spennustigið í svona leikjum og okkur líður vel í Höllinni,“ sagði Hlynur sem fagnar 42 ára afmæli sínu í desember.

Hann hvíldi í upphafi seinni hálfleiks en kom sterkur inn undir lokin og varði mikilvæg skot.

„Þetta er tæki sem við notum. Ég byrja flest alla leiki, klára fyrri hálfleik og fæ svo extra langa hvíld í byrjun þess seinni. Ef Siggi [Sigurður Ingiberg Ólafsson] er heitur heldur hann áfram, annars er ég klár í að loka leiknum,“ sagði Hlynur sem hrósaði varnarleik Vals.

„Þetta er draumur í dós. Þetta er það sem markverðir vilja, að hafa svona brjálæðinga fyrir framan sig. Ég botna ekkert í því hvar þeir fá orkuna í þetta. Ég tek hatt minn og ég veit ekki hvað ofan fyrir þeim.“

Hvað tekur svo við í kvöld hjá bikarmeisturunum?

„Við fögnum þessu. Þetta er titill og við fögnum þessu vel og eigum það skilið. Þetta er búin að vera mikil törn og við gátum ekki einu sinni fagnað því að fara áfram í Evrópukeppninni út af. Það er tvöfaldur fögnuður í kvöld,“ sagði Hlynur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×