Erlent

Viðbrögð lögreglu „í besta falli illa skipulögð og í því versta hugleysi“

Samúel Karl Ólason skrifar
38 létu lífið í árás Rezqui og þar af voru 30 frá Bretlandi.
38 létu lífið í árás Rezqui og þar af voru 30 frá Bretlandi. Vísir/AFP
Breskur dómari segir ekki rétt að sakast við ferðaskrifstofur og hótel vegna fjöldamorðsins í Sousse í Túnis árið 2015. Seifeddine Rezgui gekk rólegur um strönd við hótel í borginni og skaut 38 manns til bana í nafni Íslamska ríkisins á ströndinni og í hótelinu, áður en hann var felldur af lögreglu.

Dómarinn gagnrýndi lögregluna í Túnis harðlega, en komið hefur í ljós að lögregluþjónar hafi hlaupið frá blóðbaðinu til að ná í fleiri byssur á meðan Rezgui skaut ferðamenn til bana og kastaði handsprengjum frá sér í um hálftíma.

Á þeim tíma fóru einungis tveir hermenn inn í hótelið. Einn lögregluþjónn fór úr skyrtunni til að fela þá staðreynd að hann væri lögregluþjónn.

Af þeim 38 sem dóu voru 30 frá Bretlandi. Fjölskyldur meirihluta þeirra hafa verið að íhuga að fara í mál við ferðaskrifstofur og hótelið. Dómarinn Nicholas Loraine-Smith var fenginn til að kanna hvort vanrækslu hefði verið um að kenna.

Samkvæmt BBC segir dómarinn að svo sé ekki.

Einn maður sem var skotinn í bæði fót og handlegg segist hafa verið einn á ströndinni í um tuttugu mínútu áður en hjálp barst.

Dómarinn las upp nöfn allra þeirra sem dóu, hvernig þau dóu, hvar og lýsti aðstæðunum. Hann sagði mikið um „hvað ef?“ spurningar í þessu máli. Til dæmis gæti vel verið að ef fleiri öryggisverðir hefðu verið á hótelinu, hefðu mögulega fleiri látið lífið. Það hefði mögulega skipt máli ef öryggisverðirnir hefðu verið vopnaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×