Erlent

Segja son sinn hafa verið heilaþveginn

Samúel Karl Ólason skrifar
Íslamska ríkið birti þessa mynd af Seifeddine Rezgui daginn eftir árásina og sögðu þeir hann hafa verið á þeirra vegum.
Íslamska ríkið birti þessa mynd af Seifeddine Rezgui daginn eftir árásina og sögðu þeir hann hafa verið á þeirra vegum. Vísir/EPA
„Ég get ekki ímyndað mér að hann hafi gert þetta. Hann hélt á byssunni og gekk um svæðið. Hann skaut ekki úr henni. Ég vil vita hver skaut og kom sökinni á hann.“ Þetta segir móðir Seifeddine Rezgui, en hann skaut 38 ferðamenn til bana í Sousse í Túnis fyrir tveimur vikum. Foreldrar hans segja hann hafa verið heilaþveginn og trúa ekki að hann hafi skotið úr byssu sinni.

Þau nefna aldrei hverjir heilaþvoðu hann, en Íslamska ríkið lýsti yfir ábyrgð á árásinni.

Degi fyrir árásina kom móðir Rezgui að honum að leik við yngri bróður sinn á heimili þeirra. Hún segir hann hafa farið í sturtu og beðið sig um pening þar sem hann væri að fara að hitta vin sinn um kvöldið. Þetta segir móðir hans í viðtali við Sky News.

Faðmaði og kyssti móður sína

„Hann faðmaði mig, kyssti mig og fór. Það var í síðasta sinn sem ég sá hann. Daginn eftir bankaði lögreglan á hurðina hjá okkur. Við höfðum ekki hugmynd um hvað hefði gerst. Ég trúði þessi ekki. Jafnvel núna, ég sver til guðs, ég trúi ekki að þetta hafi gerst.“

Abdul-Hakim Rezgui, faðir Seifeddine, segir son sinn hafa elskað fótbolta, dans og lestur. Hann var í háskóla og vann á kaffihúsi á kvöldin til að safna sér fyrir áframhaldandi námi í Frakklandi. Þau segja að hann hafi aldrei verið fjarverandi í skólanum síðastliðin fjögur ár.

„Fólk segir að hann hafi verið í þjálfun í Líbýu í tvö ár. Hvernig gæti hann hafa verið í þjálfun í Líbýu? Hvernig ætti hann að hafa gert það? Hvað með háskólann? Til ferðamannanna segi ég: Guð blessi þá sem dóu og guð blessi son minn. Hann getur ekki hafa gert þetta. Vondir menn plötuðu hann og guð mun sjá um hann eins og hann á skilið.“


Tengdar fréttir

Blóðbað íslamska ríkisins

Fjögur hryðjuverk voru framin í gær í nafni íslamskra öfgaafla. Franska þjóðin er slegin óhug og François Hollande Frakklandsforseti stappaði stálinu í þjóð sína og bað hana um að gefa sig ekki óttanum á vald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×