Erlent

Sýnir Trump afhöfða Frelsisstyttuna

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Hér má sjá forsíðumyndina alræmdu.
Hér má sjá forsíðumyndina alræmdu. Vísir / skjáskot
Forsíðumynd þýska vikublaðsins Der Spiegel veldur usla í heimalandi sínum sem og erlendis en hún sýnir mynd af Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, afhöfða Frelsisstyttuna. Reuters greinir frá.

Myndin sýnir Trump halda á blóðugum hníf í annarri hendi og blóðugu höfði  frelsisstyttunnar í hinni. Fyrirsögnin er „Ameríka fyrst“.

Listamaðurinn að baki forsíðunni er Edel Rodriguez, Kúbverji sem kom til Bandaríkjanna árið 1980 sem pólitískur flóttamaður. „Hann er að afhöfða lýðræðið með því að afhöfða heilagt tákn,“ segir Rodriguez.

Mikil umræða hefur myndast í kjölfarið á Twitter og í þýskum og alþjóðlegum fjölmiðlum. Alexander Graf Lambsdorff, meðlimur í Þýska flokknum Frjálsir demókratar, lýsir forsíðunni sem smekklausri.

Forsíðumyndin kemur í kjölfar erfiðra samskipta milli Þýskalands og Bandaríkjanna síðan Trump settist í valdastól. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafði áður átt í góðum samskiptum við fyrrum forseta Bandaríkjanna Barack Obama og var sambandið á milli ríkjanna gott.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×