Körfubolti

Martin leikmaður vikunnar í þriðja sinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Martin Hermannsson er óstöðvandi í Frakklandi.
Martin Hermannsson er óstöðvandi í Frakklandi. vísir/bára dröfn
Martin Hermannsson, körfuboltamaður ársins 2016, hefur verið útnefndur leikmaður vikunnar í frönsku B-deildinni í þriðja sinn fyrir frammistöðu sína í sigurleik Charleville-Mézieres í 15. umferð deildarinnar.

Íslenski bakvörðurinn fór á kostum í leiknum en hann skoraði 28 stig, tók sjö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar í fimm stiga sigri, 85-80. Martin er ein helsta ástæða þess að liðið er í toppbaráttunni en það situr í þriðja sæti með ellefu sigra og fjögur töp.

Martin skoraði þrjár þriggja stiga körfur í sjö tilranum í síðasta leik en hann er búinn að vera besti leikmaður liðsins á tímabilinu. Hann er á sinni fyrstu leiktíð í atvinnumennsku eftir að hætta í bandaríska háskólaboltanum þar sem hann spilaði með LIU Brooklyn.

Martin er næst stigahæsti leikmaður frönsku B-deildarinnar með 18,7 stig að meðaltali í leik. Hann er í fjórða sæti yfir stoðsendingar með 6,4 að meðaltali í leik og þá er hann að hitta úr 54 prósent skota sinna sem er frábær árangur.

Með hjálpa Martins varð senegalski miðherjinn Mohamed Kone, samherji Martins hjá Charleville, útnefndur þriðji besti leikmauðr vikunnar en hann skoraði 22 stig og tók tólf fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×