Stjórnvöld Senegal hafa sent hermenn og orrustuþotur að landamærum Gambíu. Með því vilja þeir beita Yahya Jammeh, forseta Gambíu, þrýstingi svo hann víki úr embætti. Senegal hefur, í umboði Sambands vestur-Afríkuríkja (Ecowas), gefið Jammeh frest til miðnættis (GMT) til að víkja úr embætti og leyfa Adama Barrow, sem vann forsetakosningar í landinu í desember, að taka við völdum.
Önnur nágrannaríki Gambíu eru í viðbragðsstöðu, en þau hafa farið fram á blessun Sameinuðu þjóðanna við hernaðaraðgerðum, neiti Jammeh að víkja.
Jammeh tók við völdum í landinu árið 1994 í tiltölulega friðsömu valdaráni. Andstæðingur hans, Adama Barrow, vann óvæntan sigur í forsetakosningum í desember. Jammeh hefur neitað að víkja en til stóð að Barrow tæki við völdum á morgun.
Í samtali við AFP fréttaveituna segir talsmaður hers Senegal að þeir muni grípa til aðgerða á miðnætti, muni Jammeh ekki víkja.
„Ef engar pólitískar lausnir finnast, munum við ráðast til atlögu,“ segir ofurstinn Abdou Ndiaye.
Þúsundir íbúa Gambíu hafa flúið til Senegal á undanförnum dögum, af ótta við átök. Þá hafa ferðamenn frá Bretlandi og Hollandi einnig verið fluttir á brott, samkvæmt BBC.
Her Gambíu er ekki stór en í honum eru um 2.500 menn. Meðal ríkja sem hafa sent herafla til að taka þátt í mögulegum hernaðaraðgerðum eru Nígería, Ghana og Lagos.
Senegal sendir hermenn að landamærum Gambíu
Samúel Karl Ólason skrifar