Erlent

Trump sagður ætla að skipa forstjóra olíufyrirtækis í embætti utanríkisráðherra

Anton Egilsson skrifar
Rex Tillerson og Vladimir Putin.
Rex Tillerson og Vladimir Putin. Vísir/Getty
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, er sagður ætla að útnefna Rex Tillerson, forstjóra olíufyrirtækisins ExxonMobil, næsta utanríkisráðherra landsins. NBC hefur undir höndum upplýsingar þess efnis frá tveimur samstarfsmönnum Trump.

Hinn 64 ára gamli Tillerson hefur enga reynslu af störfum innan ríkisins og þá er lítið vitað um afstöðu hans til utanríkismála. Hann er þá sagður hafa tengsl við Vladimir Putin, forseta Rússlands. 

Talsmaður Trump hefur staðfest að þeir Trump og Tillerson hefðu fundað í Trump turninum í New York í dag. Um hríð hefur verið talið að Mitt Romney, fyrrum forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, myndi hreppa stöðu utanríkisráðherra en nú virðist sem að Tillerson sé kominn ofar í goggunarröðinni.

Heimildarmennirnir sögðu þó að ekkert væri fast í hendi fyrr en að Donald Trump staðfesti útnefninguna. Jason Miller, talsmaður Trump, segir að tilkynning um skipun utanríkisráðherra verði gefin út í fyrsta lagi í næstu viku.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×