Erlent

Trump vill útnefna Rick Perry sem orkumálaráðherra

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Rick Perry.
Rick Perry. Vísir/EPA
Donald Trump vill fá fyrrverandi ríkisstjóra Texas, Rick Perry sem næsta orkumálaráðherra Bandaríkjanna. CNN greinir frá. Allar líkur eru taldar á að hann muni útnefna hann í stöðuna. Öldungadeild bandaríska þingsins þarf þó að samþykkja útnefningu hans.

Í framboði til að hreppa útnefningu Repúblikanaflokksins sem forsetaefni flokksins hefur Perry þessi sagt að hann væri til í að leggja umrætt ráðuneyti alfarið niður til þess að spara í ríkisfjármálum.

Í tíð Barack Obama hefur ráðuneytið lagt áherslu á að reyna að minnka notkun ríkisins á jarðefnaeldsneyti og fjárfest í verkefnum til þess að auka á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Ljóst er að með Perry sem orkumálaráðherra verður þessari stefnu breytt. Trump hefur lagt áherslu á að fækka reglugerðum í olíu- og kolaiðnaði Bandaríkjanna sem ríkisstjórn Obama kom á í stjórnartíð sinni. 

Þá hefur hann einnig sagt að ríkisstjórn sín muni í auknum mæli bora eftir olíu heima fyrir til þess að Bandaríkin geti orðið óháðari erlendum ríkjum um olíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×