Tvær aðrar konur komust líka í efstu lög píramída ÍA því Helga Sjöfn Jóhannesdóttir varð fyrsta konan til að verða formaður bandalagsins í 70 ára sögu þess og Hulda Birna Baldursdóttir sem er nýráðinn framkvæmdastjóri knattspyrnufélags ÍA er önnur konan til að gegna þeirri stöðu.
Hildur Karen segir þær allar vinna vel saman en hvað finnst körlunum um þessar breytingar? „Mér heyrist þeir vera ánægðir með okkur og standa algerlega við bakið á okkur. Við mætum bara virðingu og trausti þar.“
Hildur Karen segir síðustu vikur hafa verið annasamar í hennar starfi, bæði vegna flutnings skrifstofu bandalagsins af Jaðarsbakkasvæðinu í íþróttahúsið við Vesturgötu og undirbúnings afmælishátíðarinnar sem hún segir hafa tekist vel.
„Þetta var fjölskyldugleðidagur. Aðildarfélög ÍA buðu upp á sýningar og gáfu gestum kost á að spreyta sig í hinum ýmsu íþróttagreinum auk þess sem veitingar voru á borðum. Okkur reiknast til að 800 til 1.000 manns hafi komið í heimsókn.“
Aðildarfélög ÍA eru 18 talsins og iðkendur um 2.500 eða um 35% íbúanna.

Sund er bæði áhugamál hennar og keppnisíþrótt. Hún kveðst sjá um ungbarnasundkennslu og samflot á Akranesi. Það síðarnefnda þarf hún að útskýra betur.
„Í samflotinu er fólk með flothettu á höfði og flotsett á lærum, liggur í heitri innisundlaug, losar um streitu og á nærandi stund í kyrrð við kertaljós,“ lýsir hún. Það hljómar óneitanlega vel.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. nóvember 2016.