Grunnskólakennarar hafa nú um nokkra mánaða skeið deilt við sveitarfélögin um kaup og kjör. Frá því í vor hafa þeir tvisvar fellt nýja kjarasamninga vegna óánægju með þá. Þeir hafa verið samningslausir síðan þá og eru ósáttir við þær launahækkanir sem að þeim hafa verið boðnar.
„Það er ekki hægt að standa í þessu ár eftir ár að vera alltaf að kvarta yfir þessu. Ef að það er þannig að kennari getur ekki lifað af launum sínum, ef að sveitarfélögin eru ekki samkeppnisfær við ríkið þá verður bara að skila þessu yfir á ríkið,“ sagði Ólafur í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Árið 1996 var kennsla í grunnskólum og rekstur sérskóla færð frá ríkinu til sveitarfélaganna og frá þeim tíma báru sveitarfélögin ein ábyrgð á rekstri þeirra.

„Þetta er spurning um að þú getir lifað af vinunni þinni. Þú átt ekki að þurfa að vera í þremur til fjórum vinnum til að ná endum saman. Við erum með mjög mikið af fólki sem vinnur aukavinnu og helgarvinnu,“ sagði Ólafur.
Ljóst sé að mörg önnur störf en kennarastörfin séu í boði í samfélaginu í dag, mörg mun betur borguð en kennaralaunin og því sé freistandi fyrir kennara að yfirgefa kennarastarfið og sækja á ný mið. Ólafur gagnrýnir sveitarfélögin fyrir að greiða lægri laun en ríkið fyrir sambærileg störf.
„Í dag held ég að meðallaun í framhaldsskóla séu 560 þúsund, þau eru rúmlega 480 þúsund í grunnskóla. Þetta eru sambærileg störf. Það gengur ekki að sveitarfélögin séu alltaf að borga minna en ríkið. Þetta er ekkert bara hjá kennurum, almennt er það þannig að starfsmenn sveitarfélaga eru á lélegri launum en starfsmenn ríkisins,“ sagði Ólafur.
Hafa sveitarfélögin efni á að borga betri laun?
„Ef þú spyrð sveitarfélögin segja þau væntanlega nei. Ef að þú ræður ekki við verkefnið þarftu að finna annan til að sinna því.“