Körfubolti

Israel Martin: Þetta snýst ekki um mig

Ingvi Þór Sæmundsson í Ásgarði skrifar
Martin þokkalega sáttur á hliðarlínunni í kvöld.
Martin þokkalega sáttur á hliðarlínunni í kvöld. vísir/anton
Israel Martin stýrði Tindastóli í fyrsta sinn í um eitt og hálft ár þegar liðið bar sigurorð af Stjörnunni, 83-91, í kvöld.

Martin var að vonum ánægður með sigurinn en gerði lítið úr eigin þætti í honum.

„Stjarnan vann fyrstu sex leikina sína og við vissum að þegar lið er á slíku skriði styttist alltaf í tapið,“ sagði Martin í samtali við Vísi eftir leik.

„Þessi sigur snýst ekki um mig. Við unnum ekki því ég tók við í vikunni, heldur vegna þess að leikmennirnir gáfu allt í leikinn. Við trúðum á þetta allan tímann, jafnvel þegar við lentum í smá vandræðum. Strákarnir áttu þetta skilið,“ bætti Spánverjinn við.

Stólarnir voru gríðarlega ákveðnir og árásargjarnir í leiknum og keyrðu grimmt á Stjörnuna. Martin sagðist hafa lagt upp með að spila hraðan bolta í leiknum í kvöld.

„Við töluðum um að spila hratt og gerðum það. Ég veit að við vorum með 16 tapaða bolta en á móti kemur að við stálum boltanum 13 sinnum. Við gerðum þeim erfitt fyrir í vörninni. Ég hef ekki áhyggjur af sókninni, við erum með nógu góða leikmenn sem finna lausnir.

„Við hlupum einföld kerfi í dag og ég lét leikmönnunum það eftir að taka ákvarðanir,“ sagði Martin sem kvaðst ánægður með framlag Bandaríkjamannsins Antonio Hester í leiknum.

„Það er of snemmt að tala um hann en ég er mjög ánægður fyrir hans hönd. Hann kom til landsins fyrir þremur dögum. Hann er að spila hérna í fyrsta skipti og í fyrsta sinn í eitt og hálft ár sem hann spilar sem atvinnumaður. Þetta er ný upplifun fyrir hann en ég er ánægður fyrir hans hönd og liðsins,“ sagði Martin að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×