Innlent

1,1 milljón á mánuði í þingfararkaup segir ekki alla söguna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata, Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna í myndveri Stöðvar 2 daginn eftir kjördag, þegar launahækkun þingmanna tók gildi.
Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata, Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna í myndveri Stöðvar 2 daginn eftir kjördag, þegar launahækkun þingmanna tók gildi. vísir/anton brink
Kjararáð hækkaði laun alþingismanna um 45 prósent með ákvörðun sinni á sjálfan kjördag, eða þann 29. október síðastliðinn. Launahækkunin tók gildi daginn eftir og hefur ekki bara áhrif á laun þingmanna sem taka munu sæti á Alþingi á næstunni heldur einnig á biðlaun þeirra þingmanna sem hætta nú á þingi, annað hvort vegna þess að þeir gáfu ekki kost á sér í kosningunum eða vegna þess að þeir náðu ekki kjöri.

Með ákvörðun kjararáðs hækka grunnlaun þingmanna, svokallað þingfararkaup, úr 762.940 krónum á mánuði í 1.101.194 krónur á mánuði. Þar með er þó ekki öll sagan sögð því þingmenn geta fengið alls kyns aukagreiðslur og álag vegna starfa sinna, til að mynda ef þeir taka að sér formennsku í fastanefndum eða gegna formennsku í þingflokki sínum.

Þannig fá varaforsetar þingsins, formenn fastanefnda og formenn þingflokka 15 prósent álag á þingfararkaup og formenn stjórnmálaflokka sem gegna ekki ráðherraembætti fá 50 prósent álag á þingfararkaup, en nánar má kynna sér reglur um þingfararkostnað hér.

Þá er nokkur munur á kjörum þingmanna landsbyggðarinnar annars vegar og svo þingmanna höfuðborgarsvæðisins hins vegar en Vísir hefur tekið saman nokkur dæmi um hversu mikið laun þingmanns geta hækkað vegna auka-og álagsgreiðslna.

Þingmenn geta fengið alls kyns aukagreiðslur og álag vegna starfa sinna, til að mynda ef þeir taka að sér formennsku í fastanefndum eða gegna formennsku í þingflokki sínum.vísir/ernir
Aukagreiðslur, álag og möguleg heildarlaun þingmanna á mánuði:

Þingfararkaup: 1.101.194 krónur

Fastur ferða-og starfskostnaður sem hver þingmaður fær greiddan: 174.815 krónur

Húsnæðis-og dvalarkostnaður landsbyggðarþingmanna: Upphæð að fjárhæð sem nemur að lágmarki 44.680 krónum en að hámarki 187.657 krónum.

Laun þingmanna höfuðborgarsvæðisins, sem gegna ekki neinum skyldum á þingi sem fela í sér aukagreiðslur, með föstum ferða-og starfskostnaði: 1.276.009 krónur

Lágmarkslaun þingmanna landsbyggðarinnar, sem gegna ekki neinum skyldum á þingi sem fela í sér aukagreiðslur, með föstum ferða-og starfskostnaði og húsnæðis-og dvalarkostnaði: 1.320.689 krónur

Hámarkslaun þingmanna landsbyggðarinnar, sem gegna ekki neinum skyldum á þingi sem fela í sér aukagreiðslur, með föstum ferða-og starfskostnaði og húsnæðis-og dvalarkostnaði: 1.463.666 krónur

Laun formanns fastanefndar á þingi (þingmaður landsbyggðarinnar) með 15 prósent álagi á þingfararkaup, föstum ferða-og starfskostnaði og hámarksgreiðslu húsnæðis-og dvalarkostnaðar: 1.628.845 krónur

Laun formanns stjórnmálaflokks (þingmaður höfuðborgarsvæðisins), sem gegnir ekki ráðherraembætti eða öðrum skyldum á þingi sem fela í sér aukagreiðslur, með 50 prósent álagi á þingfararkaup og föstum ferða-og starfskostnaði: 1.826.606 krónur

Laun formanns stjórnmálaflokks (þingmaður landsbyggðarinnar), sem gegnir ekki ráðherraembætti eða öðrum skyldum á þingi sem fela í sér aukagreiðslur, með 50 prósent álagi á þingfararkaup, föstum ferða-og starfskostnaði og hámarksgreiðslu húsnæðis-og dvalarkostnaðar: 2.014.263 krónur


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×