Erlent

Fresta friðarviðræðum um óákveðinn tíma

Samúel Karl Ólason skrifar
Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands.
Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands. Vísir/AFP
Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, tilkynnti í dag að viðræðum Rússlands og Bandaríkjanna um vopnahlé í Sýrlandi hefði verið frestað um óákveðinn tíma. Hann kenndi vestrænum stuðningsmönnum uppreisnarhópa í Sýrlandi um að hafa ekki getað slitið hópana frá hryðjuverkasamtökum eins og Nusra Front.

Þá sagði hann uppreisnarmenn hafa fellt fjölda almennra borgara í Aleppo á dögunum, þrátt fyrir hlé Rússa og stjórnarhersins á loftárásum. Til hefur staðið að hefja viðræðurnar að nýju, en svo virðist sem að ekki verði að því.

Samkvæmt Reuters fréttaveitunni sögðu Sameinuðu þjóðirnar í dag að allir aðilar sem koma að átökunum í Sýrlandi séu mögulega að fremja stríðsglæpi með árásum á almenna borgara.

Shoigu sagði að tími væri kominn fyrir vestræn ríki að ákveða sig hvort þeir væru að berjast gegn hryðjuverkamönnum eða Rússlandi. „Kannski hafa þeir gleymt því hverjir myrtu saklaust fólk í Belgíu, í Frakklandi, Egyptalandi og víðar.“

Rússar og stjórnvöld Sýrlands segja hryðjuverkasamtök eins og Nusra Front og ISIS undir sama hatt og uppreisnarhópa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×