Clinton var stödd á kosningafundi í Flórída í gær þar sem hún kallaði Trump hrekkjusvín og sagði að í þrjá áratugi hafi hann ítrekað gert lítið úr, móðgað og ráðist að konum. Clinton kom á sviðið á fundinum ásamt Aliciu Machado sem er fyrrverandi Ungfrú Heimur.
Machado hefur sagt frá því að Trump hafi kallað hana Svínku eftir að hún bætti aðeins á sig og sagði hann grimman mann. Hún hefði meðal annars glímt við átröskun vegna athugasemda Trump.
Á kosningafundinum sagði Clinton að hún hefði lært það í barnaskóla að það væri ekki í lagi að móðga og særa fólk en á kosningafundi í Ohio var Barack Obama Bandaríkjaforseti á svipuðum nótum þegar hann sagði að Trump hefði eytt ævinni í að kalla konur „svín, hunda og subbur.“
Þá hvatti hann þá kjósendur sem gert höfðu þau mistök að kjósa Clinton í utankjörfundaratkvæðagreiðslu að breyta atkvæði sínu áður en atkvæðagreiðslunni lýkur á fimmtudag og kjósa hann. Wisconsin er eitt fárra ríkja í Bandaríkjunum þar sem kjósendum leyfist að breyta utankjörfundaratkvæði eftir á, það er að kjósa aftur.
Það er augljóst að spennan er nú tekin að magnast enda aðeins tæp vika í kosningarnar eins og áður segir. Nýjustu vendingar í tölvupóstamálinu svokallaða, hefur komið Demókrötum illa og gert lítið úr þeim áætlunum Clinton að eyða síðustu vikunni í það að koma jákvæðum boðskap á framfæri.
Einnig hefur dregið á milli þeirra í könnunum og meðaltalskönnun breska ríkisútvarpsins metur stöðuna þannig að Clinton leiði baráttuna, en aðeins með fjörutíu og átta prósentum á móti fjörutíu og sex hjá Trump.