Trump er sagður hafa verið óstýrilátt barn sem varð til þess að foreldrar hans ákváðu að senda hann í herskólann í New York þegar hann var þrettán ára gamall í þeirri von um að þar myndi hann læra aga og mannasiði. Hann komst þó undan herskyldu þegar Víetnam-stríðið geisaði, vegna náms og læknisfræðilegra ástæðna, og hefur því aldrei verið í bandaríska hernum. Í viðtali við New York Times í fyrra sagði hann ástæðuna fyrir læknisleyfi frá herskyldu hafa verið hælspora.

Gekk til liðs við föður sinn
Hann gekk síðar til liðs við fyrirtæki föður hans, Elizabeth Trump and Son. Hann tók við fyrirtækinu árið 1971 og ákvað þá að breyta nafni þessi í Trump Organization. Fyrirtækið var með um 15 þúsund íbúðir til útleigu í Queens og Brooklyn en árið 1972 var það sakað um að neita svörtu fólki um íbúðir. Í júlí þetta sama ár bað svört kona um að fá að leigja íbúð af fyrirtækinu í Brooklyn. Hún fékk þau svör að engin íbúð væri á lausu. Sama dag mætti hvít kona með sömu bón en hún fékk hins vegar að velja á milli tveggja íbúða sem voru allt í einu lausar. Reyndust þær báðar vera útsendarar á vegum bandarískra yfirvalda en fyrirtækið náði að lokum sátt í málinu.

Trump ákvað síðar að leggja áherslu á íburðarmiklar byggingar á Manhattan-eyju, en á meðal framkvæmda má nefna hvernig hið niðurnídda Commodore hótel var gert upp og fékk síðar nafnið Grand Hyatt. Þá reisti hann einnig 68 hæða Trump-turninn við Fifth Avenue, eina af glæsilegustu breiðgötum New York-borgar.
Hann var ekki bara á fasteignamarkaði Manhattan því hann stundaði næturlífið grimmt og vingaðist við stjörnurnar.
Trump-byggingarnar urðu fleiri, Trump Place, Trump World Tower og Tump International Hotel svo dæmi séu tekin, en finna má Trump-turna í Múmbaí, Istanbul og Filipseyjum.
Hann hefur stofnað hótel og spilavíti og fjölda annarra fyrirtækja en fjögur þeirra hafa farið í gjaldþrot: The Trump Taj Mahal, Trump Plaza Hotel, Trump Hotels and Casinos Resorts og Trump Entertainment Resorts.

Trump hefur einnig verið í skemmtanabransanum en frá 1996 til 2015 var hann eigandi fegurðarsamkeppnanna Miss Universe, Miss USA og Miss Teen USA.
Árið 2003 var frumsýndur raunveruleikaþáttur hans The Apprentice þar sem þátttakendur kepptust um að hreppa stjórnunarstöðu innan Trump-samsteypunnar.
Trump fór fyrir The Apprentice í fjórtán þáttaröðum og fékk fyrir það 213 milljónir dollara. Samkvæmt Forbes er Trump metinn á 3,4 milljarða dala en Trump sjálfur heldur því fram að virði hans sé 10 milljarðar.

Hann hefur kvænst þrisvar. Sú fyrsta var Ivana Zelnickova, tékknesk íþróttakona og fyrirsæta. Þau áttu saman þrjú börn, Donald yngri, Ivönku og Eric. Þau skildu síðan árið 1990.
Árið 1993 kvæntist Trump Marla Maples en saman eignuðust þau dóttur sem þau nefndu Tiffany. Þau skildu árið 1999. Hann gekk að eiga fyrirsætuna Melania Knauss árið 2005 og eiga þau saman soninn Barron William Trump.
Nærri því 30 ára daður við forsetaembætti
Árið 1987 viðraði Trump fyrst opinberlega þá hugmynd að bjóða sig fram í embætti forseta Bandaríkjanna. Árið 2000 reyndi hann að verða forsetaefni Umbótaflokksins í Bandaríkjunum en dró sig síðar úr baráttunni.
Árið 2008 fór hann fyrir hópi sem vildi meina að Barack Obama hefði ekki fæðst í Bandaríkjunum. Þær fullyrðingar hafa verið hraktar en Obama fæddist á Hawaii.

Í júní í fyrra tilkynnti Trump formlega að hann ætlaði að sækjast eftir því að verða forsetaefni Repúblikanaflokksins.
Hann hlaut þá tilnefningu undir slagorðinu Make America Great Again. Hann lofaði að styrkja bandarískan efnahag, reisa vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og banna tímabundið múslimum að koma til landsins.

Barátta hans um forsetastólinn var ansi stormakennd, þar sem upptökur af niðrandi ummælum hans í garð kvenna voru gerðar opinberar.
Hann hélt því þó ítrekað fram að hann myndi hafa betur gegn Hillary Clinton, þrátt fyrir að kannanir sýndu annað og fáir þorðu að spá.
Hann hafði hins vegar sigur og verður því fyrsti forseti Bandaríkjanna sem hvorki hefur áður verið kosinn í annað embætti eða þá verið í bandaríska hernum.
Þegar hann verður svarinn í embætti í janúar næstkomandi verður hann 45. forseti Bandaríkjanna.
